„Ég er virkilega sorgmæddur fyrir hönd fólksins í Ferguson sem vöknuðu í morgun og sáu að búið var að eyðileggja hluta af þeirra samfélagi. Enginn verðskuldar þetta. Við verðum að gera betur og við munum gera betur,“ sagði Nixon á blaðamannafundi á tíunda tímanum í kvöld.
Allt var á suðupunkti síðustu nótt eftir að kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra lögreglumann sem skaut unglingspilt í bænum í ágúst. Mótmælendur kveiktu í byggingum og bílum, skotið var á lögreglu og hún grýtt. Hátt í sjötíu voru handteknir og haft var eftir lögreglustjóra í bænum að þetta hafi verið versta nótt í sögu Ferguson.