Innlent

Flestum spurningum Landspítalans og Eflingar svarað

Samúel Karl Ólason skrifar
Ingólfur Þórisson er framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs Landspítalans.
Ingólfur Þórisson er framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs Landspítalans. Vísir/Getty
Framkvæmdastjóri Hreint ehf. fundaði með forsvarsmönnum Landspítalans í morgun vegna gagnrýni Eflingar á kjör starfsfólks fyrirtækisins. Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs Landspítalans segir fundinn hafa verið ágætan og að svör hafi fengist við flestum spurningum.

„Við viljum fylgjast með hvernig menn eru að haga sinni vinnu og hvort það sé ekki örugglega verið að fara eftir kjarasamningum,“ segir Ingólfur í samtali við Vísi.

Stéttarfélagið Efling hafði sent Landspítalanum bréf vegna málsins en Ingólfur segir að þar sé komið að um tíu atriðum. Efling segir þann ræstingahóp sem sér um þrif á Landspítalanum hafa setið eftir í launahækkunum.

Um er að ræða tólf pólska starfsmenn sem sjá um þrif á 26 þúsund fermetra svæði.

„Við óskuðum eftir skýringum á þessu. Fundurinn var ágætur en sumt er enn óljóst. Varðandi mörg atriði fengum við fullnægjandi svör, en það eru tvö eða þrjú atriði sem Hreint þarf að fá frekari skýringar á áður en þeir geta svarað okkur.“

Forsvarsmenn Hreint munu funda með Eflingu á morgun þar sem farið verður sérstaklega yfir þau atriði sem enn eru óljós. Ingólfur hefur óskað eftir því að fá Landspítalinn fái að fylgjast með þeim fundi og hann reiknar með því að heyra frá Hreint eftir fundinn á morgun.

„Þessu er ekki lokið og við munum væntanlega heyra í fyrirtækinu eftir að þeir eru búnir að tala við Eflingu á morgun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×