Körfubolti

Komast Þórsarar í átta stiga hópinn í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Ingi Erlendsson.
Grétar Ingi Erlendsson. Vísir/Vilhelm
Þórsarar úr Þorlákshöfn taka á móti Skallagrími í kvöld í eina leik Dominos-deildar karla í körfubolta og Þórsarar geta hoppað upp um mörg sæti með sigri. Leikurinn fer fram í Icelandic Glacial höllinni og hefst klukkan 19.15.

Fjögur lið eru nú með átta stig í sætum þrjú til sex í Dominos-deildinni (Keflavík, Stjarnan, Haukar og Njarðvík) en Þórsarar bætast í þennan hóp takist þeim að vinna leikinn á mót Sköllunum í kvöld. Þá væru fimm lið jöfn að stigum í þriðja til sjöunda sæti deildarinnar.

Þórsliðið hefur unnið báða leiki sína gegn hinum liðunum með átta stig (unnu Keflavík 80-75 og Hauka 109-94) og munu því koma vel út þegar innbyrðisviðureignirnar raða liðunum upp í sætin takist þeim á annað borð að komast upp í átta stiga hópinn.

Skallagrímsmenn unnu sinn fyrsta leik í vetur í síðasta leik þegar Stjarnan kom í heimsókn í Borgarnes en Borgnesingar hafa tapað tveimur fyrstu útileikjum tímabilsins með 35 stigum að meðaltali. Nú er það undir þeim komið að sýna sig og sanna utan Fjóssins.

Þetta verður kannski kvöld Grétars Inga Erlendssonar sem lék með Skallagrími í fyrra en er nú aftur kominn heim í Þorlákshöfn.Grétar tapaði báðum leikjunum á móti Þór þegar hann spilaði með Skallagrími í fyrra en hann skorað 15,0 stig og tók 5,5 fráköst að meðaltali á 26,6 mínútum í þeim. Grétar þyrstir því í sigurleik í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×