Enski boltinn

Lennon um Eið Smára: Þurftum ekki að hugsa okkur um

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Bolton gegn Wimbledon árið 1999.
Eiður Smári í leik með Bolton gegn Wimbledon árið 1999. Vísir/Getty
Eins og áður hefur komið fram hefur Eiður Smári Guðjohnsen æft með Bolton, sínu gamla félagi, síðustu dagana en enn er óvíst hvort honum verði boðinn samningur við félagið.

Eiður Smári hefur verið án félags síðan samningur hans við belgíska félagið Club Brugge rann út í vor. Hann er 36 ára gamall og Neil Lennon, stjóri Bolton, segir að Eiður Smári vilji spila til að eiga möguleika á að komast í íslenska landsliðið á ný.

Lennon segir í samtali við staðarblaðið Bolton News að til standi að Eiður Smári taki þátt í æfingaleik á næstunni eða jafnvel leik með varaliði félagsins.

„Það er ekki mitt að dæma hvernig Eiði líður en hann lítur vel út. Hann hefur æft vel og er í góðu standi. Það er enn bit í honum og hann vill komast aftur í enska boltann,“ sagði Lennon.

Eiður Smári var síðast á reynslu hjá Bolton árið 1998. Þá var hann á mála hjá KR og að koma sér aftur af stað eftir alvarleg meiðsli. Hann sló í gegn hjá félaginu og var svo seldur til Chelsea tveimur árum síðar fyrir fjórar milljónir punda.

Lennon segir að hann hafi svo ekki hikað við að gefa Eiði Smára tækifæri til að æfa með félaginu þegar beiðnin kom. „Við Phil [Gartside, stjórnarformanni] þurftum ekki að hugsa okkur um þegar við fengum símtalið í síðustu viku. Maður sér á æfingum að hann er gæðaleikmaður en næstu skref ráðast af líkamlegu formi hans.“

„Við höfum séð hann á æfingum og þar lítur hann vel út. Ég vil þó sjá hann á stærra sviði en miðað við það sem ég hef séð hingað til þá tel ég ólíklegt að hann hafi miklar áhyggjur af því.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×