Erlent

Leiðtogar Afríkuríkja reiðubúnir að heyja stríð gegn Boko Haram

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Leiðtogar helstu Afríkuríkja fullyrða að þeir séu reiðubúnir að heyja stríð gegn öfgasamtökunum Boko Haram í Nígeríu. Liðsmenn samtakanna rændu rúmlega 220 stúlkum á dögunum og halda þeim nú föngnum.

Allir helstu þjóðarleiðtogar Afríkuríkjanna þáðu boð Francois Hollandes Frakklandsforseta um að sita leiðtogafund um málið sem haldinn var í París í dag. Alls voru tvö hundruð tuttugu og þrjár skólastúlkur numdar á brott í síðasta mánuði í norðausturhluta Nígeríu. Þar voru liðsmenn öfgasamatakanna Boko Haram að verki.

Leiðtogar og talsmenn Boko Haram hafa ítrekað að þeir séu reiðubúnir að skipta á stúlkunum og liðsmönnum samtakanna sem hafa verið fangelsaðir í landinu á síðustu árum. Yfirvöld í Nígeríu hafa lýst því yfir að allir samningar við Boko Haram séu útilokaðir.

Hvað gerist næst verður ákveðið í París þar sem Frakklandsforseti og kollegar hans í Benin, Kamerún, Níger og Chad funda nú ásamt forseta Nígeríu, Goodluck Jonathan. Í ávarpi sínu sagði Hollande að mikil hætta stafaði af starfsemi Boko Haram í vestur- og mið-Afríku og að samtökin væru í samstarfi við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×