Gunnar Bragi mælir fyrir þessari ályktun í skugga mikilla mótmæla sem nú hefur verið efnt til alla þessa viku á Austurvelli. Trumbuslátturinn heyrist greinilega í þingsalnum. Á sérstakri síðu þar sem efnt hefur verið til undirskriftasöfnunar hafa nú um 38 þúsund manns, eða 15.5 prósent kosningabærra manna, ritað nafn sitt og krefjast þess að Alþingi sýni þjóðinni þá virðingu að hún fái að hafa um það að segja í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort viðræðunum verður slitið.
Alþingi hefur logað í átökum um ályktunina undanfarna og meðal annars var á það bent að í greinargerð sem fylgir með tillögunni megi finna alvarlegar ávirðingar þar sem þingmenn eru sakaðir um að hafa greitt atkvæði um aðildarviðræður árið 2009 gegn sannfæringu sinni. Þar með felur greinargerðin í sér ásökun um stjórnarskrárbrot. Gunnar Bragi leggur nú fram endurskoðaða útgáfu af tillögu sinni að teknu tilliti til þessa.
Vikan hefur verið viðburðarík það sem af er og margir atburðir sem tengjast tillögunni með beinum og óbeinum hætti. Þannig vakti það athygli að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, talaði á þeim nótum, við rússneska blaðamenn, að það samræmdist engan vegin hagsmunum Íslands að vera í ESB og málið væri frágengið. Þá hafa ummæli ráðherra Sjálfstæðisflokksins mjög verið í deiglunni en þeir voru afdráttarlausir í aðdraganda síðustu alþingiskosninga: Að viðræðum yrði ekki slitið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingar, spyr, eins og áður hefur ítrekað verið spurt á þingi, hvað það sé sem kallar á þennan flýti. Af hverju ekki sé rædd nýleg skýrsla um ESB og viðræðurnar og ákvörðun tekin í kjölfar þess. Skýrslan verði ekki kynnt þjóðinni. "Hvað réttlætir þetta óðagot? Og af slíkri óbilgirni og raun ber vitni?" Efnt hafi verið til kvöld og næturfunda um málið og ákvörðun um ályktunina hafi greinilega verið tekin áður en skýrslan leit dagsins ljós.
Víst er að umræðan er talsvert hófstilltari en vænta mátti eftir að samkomulag milli þingflokksformanna tókst fyrr í dag um hvernig afgreiða á þetta mjög svo umdeilda mál á þinginu. Eftir þessa fyrri umræðu stendur til aðframhaldsumræða verði 10. mars. Þó er mikill þungi í andsvörum og mótmælin utan dyra þinghússins fara ekkert á milli mála. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, spyr til að mynda hvort ráðherra sé fáanlegur að draga tillöguna með öllu til baka? Svarið við því er einfalt af hálfu Gunnars Braga: Nei!