Tónlist

Gera grín að tónlistarmyndbandi í drullusvaði

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Þetta var algjört „surprise“. Við vissum ekkert að þetta myndband væri í vinnslu. Við vorum gjörsamlega „blown away“ þegar við sáum það,“ segir Arnór Dan Arnarson, söngvari hljómsveitarinnar Agent Fresco. Hljómsveitin hefur sent frá sér nýtt myndband sem heitir Dirt Water og er kynningarmyndband fyrir tónleika þeirra á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves sem fer fram 5. til 9. nóvember. Myndbandið er skopstæling af myndbandi sveitarinnar við lagið Dark Water en óalgengt er að hljómsveitir leggi svo mikinn metnað í að kynna tónleika sína á hátíðinni.

Myndbandinu er leikstýrt af Bowen Staines sem hefur leikstýrt fjölmörgum myndböndum fyrir íslenska listamenn. Leikarar í myndbandinu eru Esther Þorvaldsdóttir og Sumarliði V Snæland Ingimarsson.

„Bowen Staines er mikill Íslandsvinur og hann, Esther og Sumarliði voru á Mýrarboltanum í ár þar sem við vorum að spila. Þau fengu greinilega einhvern innblástur þar og tóku upp þetta myndband. Við höfðum ekki hugmynd um það og sáum það fyrst í síðustu viku. Þetta var gjöf frá þeim,“ segir Arnór.





Agent Fresco spilar á fernum tónleikum á Iceland Airwaves; í Gamla Bíói 5. nóvember, á Gauknum 7. nóvember og í Bláa Lóninu og á Marina Hotel þann 8. nóvember. Tónleikarnir í Gamla bíói verða þó aðeins frábrugðnir hinum.

„Þar ætlum við bara að spila efni sem ekki hefur verið gefið út. Hinir þrír verða bland í poka,“ segir Arnór en sveitin hefur síðustu mánuði verið að vinna í nýrri plötu.

„Þetta er búið að vera þannig ferli að allt sem hefur getað farið úrskeiðis hefur farið úrskeiðis. Samt sem áður er þetta búið að vera ótrúlega spennandi tímabil sem við lærum vonandi af. Það lenda allir í þessu einhvern tímann. En við hlökkum mikið til að spila á Airwaves. Ég held að það verði þægileg leið til að fá smá útrás og spila lögin eins og þau eru á nýju plötunni,“ segir Arnór. Aðdáendur sveitarinnar þurfa þó ekki að bíða þangað til í nóvember með að hlýða á tóna sveitarinnar því hún treður upp á Húrra á laugardagskvöldið ásamt Fufanu og Ceasetone.

„Þetta er fyrsta „headline show“-ið okkar í ár. Við erum ekki búnir að spila mjög lengi og ætlum að spila mörg ný lög sem við höfum ekki spilað áður.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband Agent Fresco við Dark Water:










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.