Viðskipti innlent

„Að öllum líkindum spretta upp nýjar síður“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF.
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF. visir/aðsend/getty
„Þetta hefur verið löng og ströng barátta hjá okkur,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp úrskurð í máli Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF, gegn fjarskiptafyrirtækjunum Vodafone og Hringdu.

Þar kemur fram að lagt sé fyrir Sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann á að umrædd fjarskiptafyrirtæki geti veitt viðskiptamönnum sínum aðgang að vefsíðunum www.deildu.net, www.deildu.com, www.thepiratebay.se, www. thepiratebay.sx og www.thepiratebay.org.

„Vonandi mun þessi úrskurður gera það að verkum að aðgangi að tveimur stærstu deilisíðum sem Íslendingar sækja verði lokað. Ekki bara hjá þeim fyrirtækjum sem úrskurðurinn beinist að heldur einnig hjá öðrum íslenskum fjarskiptafyrirtækjum. Við teljum þennan úrskurð vera fordæmisgefandi sem þýðir að önnur fjarskiptafyrirtæki þurfa að fylgja í kjölfarið.“

Guðrún gerir sér fyllilega grein fyrir því að samtökin munu aldrei ná alfarið að stöðva ólöglegt niðurhal hér á landi.

„Við náum aldrei endanlegum sigri í baráttunni og við erum það skynsamt fólk að við gerum okkur grein fyrir því að það munu að öllum líkindum spretta upp nýjar síður. Það hefur samt sýnt sig erlendis að þegar farið hefur verið í sambærilegar aðgerðir að aðsókn inn á svona síður hefur dregist verulega saman. Það verður því aðeins erfiðara fyrir fólk að nálgast efnið og brotaviljinn því meiri.“

Guðrún vonast til þess að svona mál verði auðveldari í dómskerfinu með þessu fordæmi.

„Vonandi þurfum við ekki að standa í dómsmáli sem tekur eins langan tíma og þetta,“ segir Guðrún en upphaflega lagði STEF, ásamt öðrum rétthafasamtökum, fram lögbannskröfuna 6. september árið 2013.


Tengdar fréttir

Lokað á Deildu.net

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp úrskurðar Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF, gegn fjarskiptafyrirtækjunum Vodafone og Hringdu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×