Innlent

Hundaskítur í garði Egils Helgasonar

Jakob Bjarnar skrifar
Hjónin Egill og Sigurveig búa við að svo virðist sem óprúttinn hundaeigandi vísi hundi sínum sérstaklega inní garð til þeirra og þar gerir hann stykki sín.
Hjónin Egill og Sigurveig búa við að svo virðist sem óprúttinn hundaeigandi vísi hundi sínum sérstaklega inní garð til þeirra og þar gerir hann stykki sín.
Egill Helgason sjónvarpsmaður skrifaði fyrir helgi færslu á Facebook-vegg sinn sem vakti mikla athygli, svohljóðandi: „Það er miklu meiri ami að hundaeigendum en túristum eða fullu fólki hér í miðbænum. Hvarvetna rekst maður a hundaskít. Þeir fara meira að segja með hundana inn í garð hjá manni til að skíta.“

Og kona Egils, Sigurveig Káradóttir, beinir svohljóðandi skilaboðum til Facebook-vina sinna: „Eigandi hundaskítsins í garðinum hjá mér má alveg koma og nálgast hann. Lofa að taka hann ekki - hann bíður þarna á sínum stað. Takk fyrir.“

Gaddavírsgirðing og lás á hliðið

Þau hjón búa við Skólastræti, í hjarta miðbæjarins, og segir Sigurveig þetta algerlega óskiljanlegt. Hlið er inn í garð þeirra en það virðist ekki stoppa hina ósvífnu hunda og eigendur þeirra.

„Það þarf að fara að taka á þessu einhvern veginn. Sektir og ef það gengur ekki, ætti fólk sem er ekki fært um að sjá um hundana sína ekki að fá að hafa hunda.“ Hún segir slæmt ef hún þurfi að fá sér gaddavírsgirðingu og lás á hliðin.

Margir verða til að taka undir með Agli, þeirra á meðal Eiður Svanberg Guðnason sem segir svohljóðandi sögu til marks um þennan vanda:

„Satt segirðu. Mætti ungri stúlku með hund í bandi á göngustígnum við Sjálandsskóla um hádegið í gær. Sem við mættust skeit hundurinn á gangstíginn. Hún lét sem hún sæi það ekki. Arkaði áfram. Êg spurði: Ætlarðu ekki að hreinsa upp eftir hundinn þinn? - Êg er ekki með neinn poka, sagði hún! Þessi unga stúlka var sóði. Ekki hundurinn.“

Erfitt að sanna hver á skítinn

Árný Sigurðardóttir er framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar. Undir hana heyrir hundahald í borginni og hún segir að til sín eigi að beina kvörtunum af þessu tagi. Og Árný bendir á hundasamþykktina, sem er býsna ítarleg, og eftir henni ber hundaeigendum að fara. Þar er kveðið skýrt á um að eigendur eiga að hirða upp eftir hunda sína.

„Hversu mikið vandamál þetta er skal ég láta ósagt því það er ekki mikið af kvörtunum undan þessu, eitthvað en ekki mikið og heldur minnkað en hitt. En einn hundaskítur á götunni er vissulega einum hundaskít of mikið,“ segir Árný.

Hún bendir á að það geti komið upp vandræði, að einhver búi við hlið slóða sem ekki hirða upp eftir hunda sína. „Sektir? Spurningin er hvort það sem úrræði myndi breyta einhverju? Þú sannar ekki svo auðveldlega úr hverjum hundaskítur er. Spurningin er hvernig framkvæmdin á slíku yrði og þá sönnunarbyrði. Nema fólk sé hreinlega staðið að verki. Það hefur ekkert mikið verið rætt en samkvæmt lögreglusamþykkt er heimild fyrir sekt; bara þá í tengslum við að henda rusli, skilja eftir sig úrgang eða rusl. Lögreglan er með slíkar heimildir.“

Hundaeigendur standa sig í stykkinu

Fríður Ester Pétursdóttir er framkvæmdastjóri Hundaræktarfélags Íslands og hún segist ekki hafa orðið vör við kvartanir vegna þessa. Meira að þetta komi upp í leysingum, en þetta sé ekki tíminn. Auðvitað eru einhverjir hundaeigendur sem ekki standa sig í stykkinu en hundaeigendur upp til hópa séu sér meðvitaðir um þetta.

„Mér finnst hundafólk duglegt að hirða upp og að benda öðrum hundaeigendum á nauðsyn þess. Okkar félagsmenn eru náttúrlega bara brot af íslenskum hundaeigendum en í kringum hundasýningar, þar sem stór hópur hunda kemur saman, 800 hundar, þá er þetta hirt upp jafnóðum. Hvergi skít að sjá, eða það heyrir til algerra undantekninga,“ segir Fríður.

Fríður bendir á nokkuð, sem er athyglisvert í ljósi orða Árnýjar um að kvartanir hafi fremur dregist saman en hitt, að hundahald hafi vaxið til mikilla muna. En, þetta vandamál með hundaskítinn hefur ekki aukist heldur þvert á móti, og í raun minnkað verulega sé litið til hlutfalls.

Hundaeigendur greiða há gjöld

Fríður telur það ekki ráðlegt að fara út í að halda úti einhverjum hundaskítseftirlitsmanni, erfitt sé að færa sönnur á hver á hundaskítinn, slíkt verði varla gert nema með DNA-greiningu.

„Meira vit væri að fara í aukna vitundarvakningu. Gera hundaeigendur meðvitaða um þetta, setja upp skilti eða eitthvað slíkt og nota eitthvað af þessum gjöldum sem hundaeigendum er gert að inna af hendi. Ég veit ekkert í hvað þeir peningar fara, ekki mikið gert fyrir hundaeigendur nema kannski halda úti Geirsnefi,“ segir Fríður. Hún telur það varla geta kostað svo mikið.

Og gjöld sem hundaeigendur þurfa að greiða eru rífleg. Skráning kostar 18 þúsund, skráning eftir útrunninn frest 27.480 krónur, árlegt eftirlitsgjald er 18 þúsund krónur, handsömun hunds kostar 27,350 krónur og daggjald geymslu er 2.200 krónur. Eftir því sem Vísir kemst næst komu inn í kerfi borgarinnar um 30 milljónir króna frá hundaeigendum í fyrra, en samkvæmt hundasamþykktinni er gert ráð fyrir því að allt eftirlit með hundahaldi og umstang standi undir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×