Fótbolti

HM 2022 fer fram að vetri til

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jerome Valcke hjá FIFA.
Jerome Valcke hjá FIFA. Nordic Photos / Getty
Jerome Valcke, aðalritari Alþjóðaknattspyrnusambandsins, staðfesti í dag að heimsmeistarakeppnin í Katar árið 2022 muni ekki fara fram á hefðbundnum árstíma.

Úrslitakeppni HM hefst yfirleitt í júní og lýkur í júlí en vegna mikils hita í Katar á þeim árstíma hefur verið ákveðið færa keppnina til.

„Ég tel líklegast að keppnin muni fara fram á bilinu 15. nóvember til 15. janúar,“ sagði Valcke en mikið hefur verið rætt um tímasetningu keppninnar eftir að ljóst varð árið 2010 að hún yrði haldin í Katar.

„Aðstæður [í Katar] eru bestar á þessum árstíma. Hitastigið er að meðaltali um 25 gráður og það líkist helst góðum vordegi í Evrópu. Það eru fullkomnar aðstæður fyrir knattspyrnuiðkun,“ bætti Valcke við.

Hitastigið í Katar yfir hásumarið getur náð allt að 50 gráðum en slíkar aðstæður eru taldar hættulegar bæði fyrir leikmenn og áhorfendur.

Það er hins vegar ljóst að breytt fyrirkomulag á HM 2022 hefur mikil áhrif á stærstu keppnir evrópskrar knattspyrnu það árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×