Viðskipti innlent

Mættu ekki í fyrirtöku

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá þingsetninu málsins á síðasta ári.
Frá þingsetninu málsins á síðasta ári. Mynd/Stefán
Karl Löve Jóhannsson, Gísli Reynisson, Markús Máni Michaelsson Maute og Ólafur Sigmundsson mættu ekki á fyrirtöku dómsmáls sérstaks saksóknara gegn þeim í héraðsdómi Reykjaness í morgun. Þeir eru ákærðir fyrir brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál og almennum hegningarlögum með því að hafa í sameiningu, á tímabilinu 25. mars 2009 til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands.

Um leið stóðu þeir í ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi, eins og segir í ákærunni gegn þeim.

„Háttsemi ákærðu fólst í milligöngu um gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur gegn erlendum gjaldeyri og fjármagnflutningum á íslenskum krónum til Íslands tengdum þeim gjaldeyrisviðskiptum. Ákærðu áttu allir þátt í að skipuleggja og hrinda í framkvæmd þeirri starfsemi og var hún rekin í nafni sænska félagsins Aserta AB sem ákærðu réðu yfir.“

Í kærunni segir ennfremur að fjórmenningarnir hafi látið mótaðila greiða erlendan gjaldeyri inn á gjaldeyrisreikning Aserta hjá Skandinaviska Enskilde Banken í Svíþjóð. Á áðurnefndu tímabili tóku ákærðu við samtals 771 innborgun frá samtals 84 mótaðilum. Útgreiðslur til mótaðilana námu alls 14.345.875.280 krónum á tímabilinu.

Kjör gjaldeyrisviðskiptana tóku mið af svonefndu aflandsgengi íslensku krónunnar á hverjum tíma, sem ávallt voru lægri en skráð gengi íslensku krónunnar á opinberum gjaldeyrismarkaði á Íslandi. Meðaltal þess gengismunar var að minnsta kosti 4,3 prósent og heildarágóði ákærðu var samkvæmt því að minnsta kosti rúmar 656 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×