Erlent

Samþykkja lokun Bromma-flugvallar

Atli Ísleifsson skrifar
Bromma-flugvöllur er einungis um átta kílómetrum frá miðborg Stokkhólms.
Bromma-flugvöllur er einungis um átta kílómetrum frá miðborg Stokkhólms. Vísir/AFP
Til stendur að loka Bromma-flugvelli í Stokkhólmi í síðasta lagi árið 2022 og á landið að nýtast til byggingar íbúðahúsa. Forsendan er að mögulegt verði að loka vellinum án þess að draga úr þróun og atvinnumöguleikum á svæðinu.

Ríkisstjórnarflokkar Jafnaðarmanna og Græningja hafa skrifað undir samkomulag þessa efnis ásamt þingflokki Vinstriflokksins og Feministafrumkvæðinu sem á reyndar ekki fulltrúa á þingi.

„Til að Stokkhólmur geti haldið áfram að vaxa þarf borgin bæði land til að skapa ný íbúðahverfi og skilvirka innviði. Loka á Bromma-flugvelli til að stuðla að lausn sem tryggir bæði flug og land fyrir byggingu íbúða til lengri tíma,“ segir í tilkynningu frá flokkunum.

Bromma-flugvöllur er einungis um átta kílómetrum frá miðborg Stokkhólms og er fyrst og fremst notaður undir innanlandsflug. Flokkarnir vilja að hætt verði við fyrirhugaðar uppfærslur á flugvellinum, sem var ætlað að stuðla að því að flugvöllurinn gæti tekið á móti stærri og þyngri vélum.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að flugumferðin til og frá Bromma skuli smám saman flytjast til hinna tveggja flugvallanna í nágrenni Stokkhólms, Skavsta og Arlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×