Lífið

Sameinast á Íslandsmóti í karaókí

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Böðvar Reynisson, einn eigenda Hendrix, boðar bjarta tíma í karaókímenningu þjóðarinnar.
Böðvar Reynisson, einn eigenda Hendrix, boðar bjarta tíma í karaókímenningu þjóðarinnar. fréttablaðið/valli
„Það verður öllu tjaldað til og ég reikna ég með að flestar, ef ekki allar helstu karaókístjörnur landsins mæti,“ segir Böðvar Reynisson, einn eigenda skemmtistaðarins Hendrix sem stendur fyrir Íslandsmóti í karaókí í kvöld.

Á staðnum er kominn einn flottasti karaókíbúnaður sem sést hefur á landinu og syngur þátttakandinn í gegnum sama hljóðkerfi og stærstu sveitir og dj-ar landsins sem skemmta á staðnum nota. Þá verður ekkert til sparað í ljósadýrð svo söngvarinn verður svo sannarlega í sviðsljósinu.

„Ég hef talað við nokkrar af skærustu stjörnum karaókíbransans á Íslandi en hann er nokkuð stór á heimsvísu,“ segir Böðvar sem gerir ráð fyrir mikilli og skemmtilegri keppni í kvöld. Eins og flestir vita þá koma oft í ljós leyndir hæfileikar þegar í karaókí er komið og er Böðvar sannfærður um að fjöldi hæfileikaríkra einstaklinga komi fram á sjónarsviðið í kvöld.

Karaókí hefur lítið verið stundað á staðnum hingað til en gert er ráð fyrir breytingu í þeim efnum með tilkomu nýju karaókígræjanna. „Þetta á eftir að stækka í framtíðinni, það er alltaf erfitt að byrja svona og það tekur tíma að víkka flóruna. Það er svo mikið af hæfileikaríkum karaókísöngvurum þarna úti.“

Yfir tólf þúsund lög eru í boði sem stendur og bætist stöðugt á lagalistann. „Stærsti hluti laganna er erlendur en Birgir Jóhann Birgisson, sem gerði garðinn frægan með hljómsveitunum Sálinni hans Jóns míns, Hvar er Mjallhvít? og Þúsund andlitum, vinnur nú hörðum höndum að því að búa til karaókíútgáfur af íslenskum lögum,“ útskýrir Böðvar.

Stefnt er að því að gera karaókíviðburði algengari á staðnum. „Þetta verður haldið reglulega en það þarf auðvitað bara að byrja á byrjuninni og krýna fyrsta Íslandsmeistarann svo við getum haldið áfram. Þetta er þéttur en þröngur hópur og karaókíbransinn er svolítið klíkukenndur en við ætlum að brjóta þetta aðeins upp.“

Íslandsmótið hefst klukkan 22.00 og kostar ekkert að taka þátt. Hendrix er til húsa á Stórhöfða 17 við Gullinbrú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.