Lífið

„Það er glatað að eldast“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Páll hefur verið duglegur í ræktinni síðustu þrjú ár.
Páll hefur verið duglegur í ræktinni síðustu þrjú ár. Fréttablaðið/Vilhelm
„Mér líður þokkalega. Ég er aðeins farinn að velta fyrir mér dauðanum en ekkert alvarlega. Það er samt frekar glatað að eldast. Ég reyni bara að anda djúpt enda ekkert við þessu að gera,“ segir söngvarinn Páll Rósinkrans. Þessi hæfileikaríki tónlistarmaður er fertugur í dag og býður nánustu fjölskyldu í kaffi.

„Ég býð fjölskyldunni í kökusneið og mjólkurglas í dag. Ég pantaði einhverja tertu hjá Tertugalleríi Myllunnar. Ég treysti mér ekki til að baka hana sjálfur því ég hreinlega nenni ekki að standa í því.“

Páll státar af farsælum ferli í tónlistinni og sló fyrst í gegn með hljómsveitinni Jet Black Joe sem gaf út þrjár plötur á árunum 1992 til 1994. Síðari ár hefur hann haft nóg að gera á sólóferli sínum.

„Ég vinn við það að syngja og er búinn að gera það eingöngu í fimmtán ár. Maður er eins og jólasveinninn – mætir bara þegar maður er pantaður. Ætli það sé ekki plata í bígerð hjá mér og kannsi „Best of“ líka. Það er alltaf nóg af hugmyndum en spurning hvað gerist. Stundum er best að gera ekki neitt,“ segir Páll.

„Ég kannski fer aðeins yfir lífshlaupið á þessum tímamótum, horfi til baka og hvað ég ætla að gera næst. Það er ýmislegt sem stendur upp úr en ég rifja það ekki allt saman upp hér. Það eru margar sögur og margt sem hefur gerst á ferlinum. Það er efni í heila bók,“ segir Páll en efast um að sú bók muni líta dagsins ljós.

„Ég er nú lítið hrifinn af því að nota einhverjar sögur á gráu svæði og skandala til að selja bækur og eintök. Það er ekki alveg minn stíll.“

Páll tók sig til og breytti um lífsstíl fyrir þremur árum og er mjög duglegur að hreyfa sig.

„Ég er í nokkuð góðu formi núna. Ég gerði samning við sjálfan mig um að byrja að mæta og vera flottur. Enda er maður ekkert að yngjast eins og þetta viðtal gefur til kynna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.