Lífið

Ólafur Darri með fyrirlestur í HÍ

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ólafur Darri sló á létta strengi í háskólanum.
Ólafur Darri sló á létta strengi í háskólanum. Vísir/Valli
„Ég fór um víðan völl eins og yfirleitt þegar ég er beðinn um að tala opinberlega. Ég ræddi aðallega sjálfstraust og hvernig maður kemur fram opinberlega á fundum og annað í þeim dúr. Ég ræddi það líka hvernig það er fyrir mann eins og mig að tala opinberlega sem er mjög feiminn að eðlisfari. Stundum þarf maður að leggja það til hliðar og búa sér til nýtt sjálf sem getur komið fram opinberlega og talað,“ segir leikarinn Ólafur Darri Ólafsson.

Ólafur Darri hélt fyrirlestur um sjálfstraust fyrir nemendur á námskeiðinu Samvinna og árangur í Háskóla Íslands í vikunni en námskeiðið er átta vikur og er markmið nemendanna að safna fjár fyrir Barnaspítala Hringsins.

Á fyrirlestrinum ræddi Ólafur Darri meðal annars um sína eigin reynslu en hann hefur sótt áheyrnarprufur hjá stórstjörnum á borð við Ben Stiller og landaði hlutverki í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty.

Fyrirlestur Ólafs Darra vakti mikla lukku meðal nemendanna.Vísir/Valli
„Verkefnin sem bíða þessara nemenda eru lík þeim sem ég get tengt við úr eigin vinnu. Ég ræddi þá aðallega um það þegar hlutirnir hafa gengið illa því maður lærir mest af því. Þetta var meira í spjallformi og svo spurðu nemendur aðeins. Mér fannst þetta óskaplega skemmtilegt.“

Síðustu dagar hafa verið annasamir hjá Ólafi Darra. Hann frumsýndi Hamlet í Borgarleikhúsinu á laugardaginn og svo voru amerísku þættirnir True Detective frumsýndir á Stöð 2 í vikunni en í þeim leikur okkar maður á móti Woody Harrelson og Matthew McConaughey.

„Ég horfði ekki á þáttinn - ég er ekki með Stöð 2. Ég verð bara að horfa á þetta seinna. Ég er í mjög litlu hlutverki og held að ég sé í einum til tveimur þáttum. Þetta var voðalega gaman og svo sem ekki mikið meira að segja um þetta ferli. Að vinna með þessum erlendu stjörnum var eiginlega eins og að vinna með íslenskum súperstjörnum,“ segir Ólafur Darri sem leikur Hamlet út mars.

„Ég veit ekki hvað gerist eftir það. Það verður spennandi að sjá.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.