Lífið

Andlegt jafnvægi í forgang

Marín Manda skrifar
Haraldur Magnússon, streitu- og vellíðunarráðgjafi.
Haraldur Magnússon, streitu- og vellíðunarráðgjafi.
Haraldur Magnússon ráðleggur hvernig hægt er að vinna bug á streitu með réttu hugarfari og réttum verkfærum og bendir á að stress getur verið vinur þinn.

Haraldur Magnússon hefur sérhæft sig sem streitu-og vellíðunarráðgjafi frá Canadian Institute of Stress og heldur námskeið í streitustjórnun sem ber nafnið Náðu tökum á stressi – einfaldar leiðir til betra lífs. Dagsdaglega starfar hann sem osteópati, sem þýðir að hann meðhöndlar og leysir stoðkerfisvandamál hjá viðskiptavinum sínum sem eru jafnan með verki í hálsi, baki og ýmis krónísk tilvik. Haraldur segir að hægt sé að flokka fólk niður í sex mismunandi stress-týpur en námskeið hans byggir á því að þú lærir að þekkja þig sem stress-manneskju og færð verkfæri til þess að slaka á svo stressið nái ekki yfirhendinni.

„Eftir nokkur ár við að meðhöndla fólk tók ég greinilega eftir því að manneskju, sem var undir miklu álagi eða var neikvæð gagnvart ástandi sínu, farnaðist mun verr en þeim sem var jákvæður og tók yfirvegað á vandamálum sínum. Það er greinilegt að hugarfar fólks gagnvart vandamálum sínum er stór þáttur í alhliða heilbrigði manneskjunnar. Samspil hugar og líkama er ótrúlegt fyrirbæri,“ segir Haraldur.

En hvað er eiginlega stress? Haraldur segir að skilgreiningarnar séu margþættar en einna helst er stress breyttar aðstæður eða álag sem manneskjan þarf að laga sig að. Streita er því persónubundin.

„Dæmi um stress getur verið að kaupa sér hús, andlát maka, veikindi, fjármál, slæmt mataræði, koma börnunum í skóla og svo á æfingu eða samskipti við börnin sín og maka. Það sorglega við það er að við erum alltaf að hugsa um heilsuna hvað varðar mataræði og hreyfingu en streitan er lykillinn að heilbrigðu líferni. Það má ekki gleyma því að það sem við köllum stress er eðlilegur hluti af lífi hverrar manneskju og mun alltaf vera til staðar í mismunandi formi. Okkar hlutverk er hins vegar að lágmarka slæm áhrif þess og hámarka jákvæðu áhrifin.“

Það er alkunna að stress er óhollt og veldur skaðlegri niðurbrjótandi hversdagshegðun. Margar rannsóknir tengja stress við offitu og stærsta hluta af öllum heimsóknum til heimilislæknis má rekja til streitu.

„Hið dæmigerða meðal við streitu er að finna eitthvert ráð til að slaka á, djúpslökun eða íhugun, setja sér raunhæfari markmið og halda sig við jákvæðar dagsdaglegar rútínur. Mikilvægt er að spyrja sjálfan sig: hvað vil ég fá út úr lífinu? Slökun er góð, en galdurinn liggur í að nota sönnuð verkfæri til að kljást við streitu nær uppruna sínum á þann veg sem hentar þér persónulega.“

Hægt er að nálgast upplýsingar um námskeiðið á vefsíðu Lifandi markaðar, hér 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.