Skoðun

Þannig týnist tíminn

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir skrifar
Óskalag þjóðarinnar er ljúfur ópus Bjartmars Guðlaugssonar, Þannig týnist tíminn. Tíminn hefur einmitt verið mér hugleikinn undanfarið. Sennilega vegna þess að oftast finnst mér ég ekki hafa nóg af honum. Þannig kemur til dæmis jólaundirbúningurinn mér gjörsamlega í opna skjöldu því mér finnst raunverulega eins og ég hafi pakkað rauðu jólaeldhúsblúndunum, litla jólatrénu með ljósunum og aðventukransinum niður í gær. Árið hefur þotið áfram án þess að ég tæki eftir því; eiginlega eingöngu vegna þess að ég gleymdi að líta í kringum mig, njóta þess að vera og þakka fyrir tímann.

Ég er samt viss um að ef ég gef mér tíma til að rýna í baksýnisspegilinn, þá munu birtast mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum hlýjar minningar, vandræðaleg augnablik, markmið sem náðust og draumar sem rættust. Á þessu ári, sem hefur þotið áfram.

En undanfarið hef ég verið minnt á að tíminn er ekki endalaus. Og það kemur ekki til af því að ég sé að missa heilsuna eða að eitthvað sé að fara að eiga sér stað sem gæti mögulega kollvarpað því góða og hamingjuríka lífi sem ég lifi núna. Nei, ástæðan er sú að ég óttast að mín kynslóð – ég þar á meðal – sé að sólunda þeim tækifærum og tíma sem okkur er gefinn núna, til að annast um samferðafólk okkar eins vel og okkur er unnt. Erum við að hrósa fyrir það sem vel er gert? Erum við að hjálpa fólki til sjálfshjálpar? Erum við að hlusta með hjartanu á fólk?

Ég veit ekki – frekar en nokkur annar – hvenær að því kemur að lífið verður ekki eins og það er núna. Því ef það er eitthvað sem er ófyrirsjáanlegt í lífinu, þá er það lífið sjálft. En ég veit að tíminn getur afar auðveldlega týnst. Og einhvern veginn einmitt þegar við þurfum mest á honum að halda, þá finnum við hann hvergi. Þess vegna skulum við nýta tímann vel. Við vitum ekki hvenær sá dagur kemur sem verður okkar síðasti. Ég óska þess að við munum þá geta litið tilbaka full þakklætis fyrir tímann sem okkur var gefinn.

Með hlýjum óskum um að þið njótið aðventunnar.




Skoðun

Skoðun

Skjárinn og börnin

Daðey Albertsdóttir,Silja Björk Egilsdóttir,Skúli Bragi Geirdal skrifar

Sjá meira


×