Búið er að opna Reykjanesbraut aftur og eru flestar aðalleiðir í grennd við höfuðborgarsvæðið að opnast. Enn er þó lokað á Grindavíkurvegi og Suðurstrandarvegi. Eins er lokað á Mosfellsheiði og eins frá Rauðavatni austur yfir Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að hálka sé á Reykjanesbraut.
Enn er stórhríð á utanverðu Snæfellsnesi og ófært á Vatnaleið og þar fyrir vestan á norðanverðu nesinu. Eins er stórhríð á Útnesvegi og Fróðárheiði. Vegagerðin segir að ófært sé á Holtavörðuheiði og þungfært í norðanverðum Hrútafirði. Annars éljar eða skafrenningur um mest allt Vesturland og alls staðar er snjóþekja eða hálka.
Versnandi veður er á Vestfjörðum, stórhríð er á Klefaheiði, Mikladal og Hálfdáni en þar er vegurinn ófær. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Klettsháls, og í Ísafjarðardjúpi og snjóþekja og stórhríð er á Flateyrarvegi. Á öðrum stöðum er snjóþekja eða hálka og vaxandi ofankoma og skafrenningur.
Snjóþekja og hálka á flestum vegum á Norðurlandi en þar fer veður versnandi. Þæfingsfærð og stórhríð er í Húnavatnssýslum og á Skagastrandarvegi auk þess sem ófært er og stórhríð á Þverárfjalli, á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Vegurinn um Dalsmynni er lokaður. Snjóþekja og stórhríð er á Mývatnsöræfum en snjóþekja og óveður er á Möðrudalsöræfum, að því er fram kemur í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Frá Kirkjubæjarklaustri og vestur fyrir Vík er þæfingsfærð og snjókoma og óveður við Hvamma og á Austur- og Suðausturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á velflestum vegum.
Búið er að opna Reykjanesbraut en veður enn mjög slæmt á landinu
Aðalsteinn Kjartansson skrifar
