Búið er að aflýsa flugi til Ísafjarðar og athugun er á flugi til Akureyrar og Egilsstaða klukkan 11:15. Að sögn Inga Þórs Guðmundssonar, hjá Flugfélagi Íslands, er ekki útlit fyrir að flogið verði meira frá Reykjavík í dag vegna veðurs, en eitt í morgun var flogið til Akureyrar.
Flugfélag Íslands hefur einnig aflýst flugi til Nuuk í Grænlandi, en brottför hefði átt að vera klukkan 12:00.
Alls áttu vélar á vegum Flugfélags Íslands að fara í loftið tíu sinnum frá Reykjavíkurflugvelli í dag. Upplýsingar um komur og brottfarir má nálgast á vefsíðu flugfélags Íslands.
Slæmt veður gengur nú yfir suðvesturhorn landsins og spáir versnandi veðri. Stormur mun skella á Suður- og Vesturlandi fyrir hádegi og með honum fylgir mikil snjókoma. Þá gæti Hellisheiðin orðið erfið yfirferðar samkvæmt Veðurstofu Íslands. Í kringum hádegið mun snjókoman breytast í slyddu og rigningu á láglendi og í kvöld mun veðrið hafa gengið yfir.
Með þessu er búist við stormi eða suðaustan 18 til 23 metra á sekúndu í dag. Í kvöld mun vindurinn snúa í suðvestur með éljum á Suður- og Vesturlandi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biður fólk um að fylgjast með veðri og veðurspám í dag og segir að gott verði að halda kyrru fyrir nema nauðsyn sé.
