HK fór norður á Akureyri í kvöld og sótti tvö stig KA-heimilið efir fimm marka sigur á heimstúlkum í KA/Þór í Olís-deild kvenna í handbolta en þetta var frestaður leikur frá því fyrir áramót.
HK vann leikinn 31-26 eftir að hafa verið einu marki undir í hálfleik, 15-16. KA/Þór náði ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik og HK vann seinni hálfleikinn með sex marka mun, 16-10.
Gerður Arinbjarnar skoraði 9 mörk fyrir HK og Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir var með átta mörk. Ásdís Sigurðardóttir skoraði mest fyrir KA/Þór eða sjö mörk.
HK-liðið komst upp fyrir FH (á innbyrðisleikjum) og upp í sjötta sæti deildarinnar með þessum góða útisigri. Öll lið deildarinnar hafa nú leikið tíu leiki.
KA/Þór - HK 26-31 (16-15)
Mörk KA/Þór: Ásdís Sigurðardóttir 7, Martha Hermannsdóttir 6, Arna Kristín Einarsdóttir 3, Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir 3, Erla Hleiður Tryggvadóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 2, Birta Fönn Sveinsdóttir 2, Stefanía Theodórsdóttir 1. Vítanýting: 6/4 (67 prósent)
Mörk HK: Gerður Arinbjarnar 9, Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir 8, Sigríður Hauksdóttir 5, Guðrún Erla Bjarnadóttir 4, Sóley Ívarsdóttir 4, Aníta Björk Bárðardóttir 1. Vítanýting: 7/6 (86 prósent).

