Fótbolti

FIFA: Engin ákvörðun tekin enn um HM 2022

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Nordic Photos / Getty
Þrátt fyrir yfirlýsingar eins hæst setta embættismanns Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort að HM 2022 í Katar fari fram að vetri til.

Aðalritarinn Jerome Valckelét hafa eftir sér í morgun að heimsmeistarakeppnin færi fram að vetri til þar sem of heitt væri yfir sumarmánuðina í þessum heimshluta.

Talsmaður FIFA segir nú að Valcke hafi aðeins verið að lýsa sinni skoðun á málinu og að engin lokaákvörðun verði tekin fyrr en eftir að HM í Brasilíu fer fram í sumar.

„Það er enn verið að ræða nákvæmar dagsetningar við alla hagsmunaaðila í alþjóðlega knattspyrnuumhverfinu - aðildarsambönd, deildir, félög, leikmenn og samstarfsaðila FIFA,“ sagði talsmaðurinn.

„Þessi ákvörðun verður ekki tekin í flýti en nauðsynlegt er að taka sér tíma til að íhuga vandlega allar hliðar málsins.“

Jim Boyce, einn varaforseta FIFA, sagði ummæli Valcke hafa komið sér mjög á óvart og að lokaákvörðunin væri í höndum framkvæmdastjórnar FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×