Innlent

Stefán Jón sækir um útvarpsstjórastöðuna

Jakob Bjarnar skrifar
Stefán Jón Hafstein, sá fyrsti sem kemur fram í dagsljósið sem umsækjandi um stöðu útvarpsstjóra.
Stefán Jón Hafstein, sá fyrsti sem kemur fram í dagsljósið sem umsækjandi um stöðu útvarpsstjóra.
Stefán Jón Hafstein ætlar að sækja um stöðu útvarpsstjóra sem auglýst hefur verið laus til umsóknar en umsóknarfrestur rennur út 12. þessa mánaðar. Stefán Jón er sá fyrsti sem vitað er til að muni sækja um en margir hafa verið nefndir til sögunnar - en það þá fylgt þeirri sögu að þeir ætli ekki að sækja um.

Stefán Jón upplýsti þetta í útvarpsþættinum Virkir morgnar í morgun. Stefán Jón Hafstein starfar hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands og dvalið starfa sinna vegna í Afríku undanfarin ár. En hann stýrði Rás 2 í árdaga þeirrar útvarpsstöðvar og vakti verðskuldaða athygli fyrir skelegga framgöngu á öldum ljósvakans.

Vísir hafði samband við Stefán Jón og spurði hann meðal annars hvort ætla mætti að pólitísk fortíð hans, þá sem einn helsti bandamaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og R-listans á sínum tíma, gæti ekki reynst honum óþægur ljár í þúfu; þá að teknu tilliti til þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa meirihluta í stjórn RÚV. Hann svaraði því að hætti hússins, líkt og hann væri að eiga við innhringjanda í útvarpsþáttinn Þjóðarsálina: „Ég er bara að undirbúa umsókn og ætla ekkert að segja meira um hana. Þetta er ekki framboð heldur bara umsókn um laust starf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×