Handbolti

Heimsmeistararnir á góðu róli stuttu fyrir mót

Spænska landsliðið
Spænska landsliðið Mynd/AFP Images
Spánverjar áttu ekki í vandræðum í leik sínum gegn sænska landsliðinu í síðasta æfingarleik liðsins fyrir Evrópumótið í handbolta sem fer fram í Danmörku.

Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 8-8 þegar tíu mínútur voru til hálfleiks en þá setti spænska liðið í lás og breytti stöðunni í 17-9 fyrir hálfleikinn. Eftir það var sigurinn ekki í hættu og héldu Spánverjar öruggu forskoti það sem eftir lifði leiks og unnu að lokum öruggan sigur, 28-22.

Spánverjar unnu alla þrjá leiki sína á æfingarmótinu sem fór fram á Spáni og koma því á góðu skriði inn í Evrópumótið þrátt fyrir að hafa misst Alex Dujshebaev í meiðsli stuttu fyrir mót.

Ungverjar töpuðu fyrir Pólverjum í síðasta æfingarleik sínum fyrir mótið með sjö mörkum. Ungverjar sem tóku þátt í æfingarmótinu með Pólverjum, Tékkum og Hvít-Rússum unnu aðeins einn leik af þremur og ættu því ekki að vera með mikið sjálfstraust fyrir leikina sem eru framundan. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en pólska liðið jók smátt og smátt muninn í seinni hálfleik og vann að lokum öruggan sigur.

Það er því ljóst að liðin sem eru með Íslandi í riðli á Evrópumótinu koma í misgóðu standi inn í mótið en síðasta lið riðilsins, Noregur tapaði óvænt gegn Katar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×