Erlent

"Ef þú vilt gera Snapchat aðganginn þinn öruggan skaltu eyða honum"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Framkvæmdastjóri Snapchat, Evan Spiegel, þykir hafa misstigið sig í tengslum við öryggisgalla í samskiptaforritinu.
Framkvæmdastjóri Snapchat, Evan Spiegel, þykir hafa misstigið sig í tengslum við öryggisgalla í samskiptaforritinu. AP
Stjórnendur Snapchat hafa verið sakaðir um vanrækslu í tengslum við öryggisgalla sem blasti við í forritinu í marga mánuði án þess að nokkuð væri aðhafst. Það leiddi að endingu til þess að notendanöfnum og símanúmerum 4,6 milljónum notenda var lekið á netið.

Framkvæmdastjóri Snapchat, Evan Spiegel, þykir hafa tekið viðvaningslega á vandanum og reynt að sópa honum undir teppi. Hópur áhugamanna sem kallaði sig Gibson Sec benti Snapchat á öryggisgallann í ágúst á seinasta ári, en gallinn gerði hverjum sem er að kleift skoða hvernig innviðir forritsins litu út.

Snapchat aðhafðist ekkert í málinu og að endingu setti Gibson Sec upplýsingarnar á internetið á jóladag í von um að Snapchat myndi bregðast við. Stjórnendur Snapchat brugðust við með því að fullyrða að notendur þyrftu engar áhyggjur að hafa vegna gallans. Fjórum dögum seinna kom svo í ljós að ekkert hefði verið gert til að koma í veg fyrir gallann og að tölvuþrjótar höfðu nýtt sér veikleikann og dreift notendanöfnum og símanúmerum notenda á veraldarvefnum, þvert á það sem Snapchat hafði sagt skömmu áður.

Málið þykir sérstaklega alvarlegt fyrir Snapchat vegna eðlis þjónustunnar, en kjarni hennar er sá að myndir og upplýsingar sem notendur senda sín á milli eyðist að fáeinum sekúndum liðnum og þannig sé fyllsta trúnaðar gætt um það sem fer manna á milli í gegnum forritið. Gagnrýnendur hafa lýst yfir áhyggjum um að Snapchat muni ekki geta staðið við þetta loforð og fréttavefurinn Business Insider segir til dæmis vegna málsins: „Ef þú vilt gera Snapchat aðganginn þinn öruggan skaltu eyða honum"

Business Insider segir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×