Sport

Metþátttaka á Iceland International í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragna Ingólfsdóttir vann Iceland International fimm sinnum á ferlinum síðast árið 2011.
Ragna Ingólfsdóttir vann Iceland International fimm sinnum á ferlinum síðast árið 2011. Mynd/Anton
Metið yfir flesta erlenda keppendur á alþjóðlega badminton-mótið Iceland International fellur með stæl í ár en það kom í ljós þegar skráningu á mótið lauk. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Badmintonsambandi Íslands.

76 erlendir keppendur munu taka þátt í mótinu í ár sem er algjört met en gamla metið var 58 erlendir keppendur.

Keppendurnir í ár koma frá 22 löndum auk Íslandi; Austurríki, Belgíu, Danmörku, Englandi, Finnlandi, Hollandi, Indlandi, Indónesíu, Írlandi, Kanada, Litháen, Malasíu, Nígeríu, Noregi, Nýja Sjálandi, Rússlandi, Skotlandi, Spáni, Tékklandi, Úkraínu, Wales og Þýskalandi.

Þetta er gríðarleg aukning erlendra keppenda frá árinu 2011 en þá tóku 23 erlendir keppendur þátt. Keppendur frá Íslandi eru 38 talsins.  

59 keppendur eru skráðir í einliðaleik karla, 24 í einliðaleik kvenna, 27 pör í tvíliðaleik karla, 13 pör í tvíliðaleik kvenna og 24 pör í tvenndarleik.

Forkeppni verður í einliðaleik karla en enginn íslenskur keppandi kemst beint í aðalkeppnina. 35 keppendur taka þátt í forkeppninni og keppa um átta sæti í aðalkeppninni.  Heimslistinn 2. janúar ákvað hvaða keppendum er raðað og hverjir fara í forkeppni og hverjir beint í aðalkeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×