Fótbolti

Hefði framið sjálfsmorð hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniele De Rossi.
Daniele De Rossi. Mynd/NordicPhotos/Getty
Ítalski miðjumaðurinn Daniele De Rossi hjá A.S. Roma var mikið orðaður við ensku meistarana í Manchester United í sumar en leikmaðurinn sjálfur er afar ánægður með að hafa verið áfram í Rómarborg.

Daniele De Rossi er 30 ára gamall og hefur spilað með Roma frá aldarmótum eða síðan hann var bara sautján ára gamall.

„Sem betur fer fór ég ekki til Manchester. Ég hefði verið búinn að fremja sjálfsmorð hjá Manchester United, Hefði ég farið þá sæi ég aldrei Róm," sagði Daniele De Rossi meðal annars í viðtali við ítalska blaðið Corriere Dello Sport.

Í umræddum ummælum er hann að vísa til þess hvernig það hefði verið fyrir hann að horfa á það úr fjarlægð þegar Roma væri að berjast um ítalska meistaratitilinn.

A.S. Roma er í harðri baráttu við Juventus og liðin mætast einmitt í toppslag um helgina. Juventus er með fimm stiga forskot og er á heimavelli á sunnudaginn. De Rossi og félagar í A.S. Roma verða því að vinna leikinn.

A.S. Roma varð síðast ítalskur meistari vorið 2001. De Rossi steig sín fyrstu spor með aðalliði félagsins tímabilið eftir. Hann hefur því aldrei unnið titilinn þrátt fyrir að hafa spilað í deildinni í tólf tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×