Sport

Vick ætlar að halda áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Vick, leikmaður Philadelphia Eagles.
Michael Vick, leikmaður Philadelphia Eagles. Nordic Photos / Getty
Michael Vick reiknar með því að vera byrjunarliðsmaður í NFL-deildinni þegar nýtt tímabil hefst í haust.

Vick hóf leiktíðina sem leikstjórnandi Philadelphia Eagles en meiddist um mitt tímabil. Nick Foles tók við og stóð sig svo vel að Vick komst ekki aftur að.

Michael Vick hefur reyndar ekki komist í gegnum heilt tímabil vegna tíðra meiðsla síðan hann kom til Eagles árið 2009. En hann telur að það muni ekki valda því að hann komist ekki að hjá nýju félagi.

„Það er enn allt til staðar hjá mér - hæfileikarnir, kastgetan og lappirnar. Ég get enn spilað og ég tel að ég muni spila hjá öðru félagi,“ sagði Vick við fjölmiðla vestanhafs.

Hann útilokar þó ekki að vera áfram hjá Philadelphia og þá sem varamaður fyrir Foles. „Það getur allt gerst og best að útiloka aldrei neitt. En ég er ekkert að hugsa um þessa hluti núna. Ég er að einbeita mér að því að hjálpa þessu liði að verða meistari.“

Philadelphia mætir New Orleans Saints í fyrstu umferð úrslitakeppni NFL-deildarinnar aðfaranótt sunnudags.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×