Lífið

Nexus hreinsar út af lagernum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Gísli segir að einungis verði tekið við reiðufé þar sem búið er að aftengja net og kassakerfi á gamla staðnum.
Gísli segir að einungis verði tekið við reiðufé þar sem búið er að aftengja net og kassakerfi á gamla staðnum. vísir/anton
Sérverslunin Nexus hefur auglýst lagerhreinsun í gömlu húsakynnum sínum við Hverfisgötu á morgun. Húsið verður jafnað við jörðu og verslunin hefur komið sér fyrir í nýju húsnæði við Nóatún.

„Þetta er bókstaflega rýmingarsala,“ segir Gísli Einarsson, eigandi Nexus. „Við ætlum að losa okkur við dót sem hefur verið sett til hliðar þegar útsölur hafa verið og þarna er eitt og annað.“

Meðal þess sem finna má á útsölunni eru notaðir mynddiskar úr einkasöfnum, á milli 1.000 til 1.500 titla, gamall spilalager og veggspjöld. Einnig verða gamlar VHS-spólur gefnar þeim sem vilja.

„Við eigum ennþá gamla VHS-lagerinn. Við settum hann í sölu í sumar og þá fór eitthvað en við gerum okkur ekki vonir um að selja meira. Því mega menn bara hirða þetta. Þetta eru aðallega sjónvarpsseríur, Star Trek, anime og annað þvíumlíkt.“

Gísli segir að einungis verði tekið við reiðufé þar sem búið er að aftengja net og kassakerfi á gamla staðnum. Nexus flutti seint á síðasta ári og að sögn Gísla fer vel um viðskiptavinina á nýja staðnum.

„Það var auðvitað svolítið sjokk að flytja en jólin komu mjög vel út,“ segir Gísli, og aðspurður segist hann ekki sakna neinna fastakúnna frá Hverfisgötunni. „Nei ég held það hafi bókstaflega allir flutt með okkur. Enda fluttum við okkur ekki nema um 800 metra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.