Lífið

Ævar vísindamaður með eigin þátt

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
mynd/Einkasafn
Þátturinn Ævar vísindamaður hefur göngu sína á RÚV 1. febrúar. Þátturinn er fyrir börn og unglinga og er kastljósinu beint að vísindum fyrir þann hóp.

Ævar vísindamaður hefur verið reglulegur gestur í Stundinni okkar síðustu fimm árin, en vegna mikilla vinsælda hefur hann nú fengið sinn eigin þátt. Þátturinn sem fer í loftið laugardaginn 1. febrúar er sá fyrsti af alls átta þáttum, sem allir eru 25 mínútur að lengd.

Það gengur á ýmsu í þáttunum; áherslan er lögð á að kveikja áhuga á vísindum og notar Ævar vísindamaður hinar ýmsu aðferðir til þess. 

Vísindamenn úr mannkyns- og bókmenntasögunni verða einnig til umfjöllunar og fékk Ævar nokkra af helstu stórleikurum þjóðarinnar til að bregða sér í gervi þeirra. Ingvar E. Sigurðsson er til dæmis tímaferðalangurinn úr skáldsögu H.G. Wells, Þórunn Arna Kristjánsdóttir er Marie Curie, Snorri Engilbertsson er Dr. Victor Frankenstein og Jóhannes Haukur Jóhannesson er sjálft skrímslið.

Í haust biðlaði Ævar vísindamaður til allra barna og unglinga á Íslandi og efndi til tilrauna-myndbandakeppni. Viðtökurnar urðu framar öllum vonum, en yfir hundrað myndbönd bárust frá bæði einstaklingum og bekkjum alls staðar að af landinu. Dómnefndin, sem meðal annars inniheldur rektor HÍ, situr nú sveitt að störfum við að velja sigurvegarana.

Ævar vísindamaður er leikinn af Ævari Þór Benediktssyni, sem jafnframt skrifar þættina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.