Handbolti

Aron: Ökklinn lítur ágætlega út

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Aron Pálmarsson tók ekki þátt í æfingu íslenska landsliðsins í dag. Hann er tognaður á ökkla og var því í séræfingum hjá sjúkraþjálfurum liðsins.

„Ég æfði lítið sem ekkert núna. Það er verið að hvíla ökklann á mér núna og þetta er tímaspursmál hjá mér. Ökklinn lítur ágætlega út og þeir hafa náð að halda bólgunni ágætlega niðri. Ég hef verið stífteipaður, í kælingu og fleiru. Það verður framhald á því fram að leik,“ sagði Aron eftir æfinguna í dag.

„Ég tók korter á hjólinu og svo sjúkraþjálfaræfingar. Þær eru ekkert þær skemmtilegustu í heimi en nauðsynlegar fyrir mig núna.“

Aron hefur verið að glíma við meiðsli í hné og það jákvæða við lítinn spiltíma í gær er að hann gat þó aðeins hvílt það.

„Hnéð fékk auka tvo daga sem er jákvætt enda ekki nógu góður þar heldur. Segjum þá að þetta sé mjög jákvætt að ég hafi snúið mig á ökklanum.“

Aron segir að leikmenn íslenska liðsins séu alls ekkert búnir að gleyma leiknum frá Ólympíuleikunum í London þar sem Ungverjar „stálu“ sigrinum af Íslandi.

Viðtalið við Aron í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×