Sport

Öruggt hjá Manning og félögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manning stýrir sókn Broncos í kvöld.
Manning stýrir sókn Broncos í kvöld. Mynd/AP
Frábær varnarleikur Denver Broncos sá til þess að liðið lenti ekki í teljandi vandræðum með San Diego Chargers í lokaleik helgarinnar í NFL-deildinni.

Denver vann sjö stiga sigur, 24-17, en hélt San Diego stigalausu þar til í fjórða leikhluta. Philip Rivers, leikstjórnandi San Diego, komst þá loksins í gang en það var of seint.

Peyton Manning byrjaði vel í kvöld og gaf tóninn snemma með tveimur sendingum sem gáfu snertimörk. Demaryius Thomas og Wes Welker tóku við þeim.

Leikurinn var í raun aldrei spennandi en vörn Broncos fór á kostum í leiknum. Rivers kláraði aðeins fimm sendingar í öllum fyrri hálfleiknum og kastaði aðeins 20 jarda.

Denver er nú komið í úrslitaleik AFC-deildarinnar og mætir þar Tom Brady og félögum í New England Patriots. Sigurvegarinn í leiknum kemst svo áfram í Super Bowl sem fer fram í New York í byrjun næsta mánaðar.

Manning og Brady hafa háð margar rimmur í gegnum tíðina og verða þeir enn og aftur í eldlínunni um næstu helgi.

Seattle Seahawks og San Francisco 49ers eigast svo við í úrslitaleik NFC-deildarinnar, einnig á sunnudag. Báðir leikir verða sýndir á Stöð 2 Sport.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×