Fótbolti

Nítján ára lánsmaður frá Juventus sá um AC Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Berardi (25) fagnar einu marka sinna í kvöld.
Berardi (25) fagnar einu marka sinna í kvöld. Nordic Photos / Getty
Domenico Berardi varð í dag yngsti leikmaðurinn í sögu ítölsku úrvalsdeildarinnar til að skora fernu. Það gerði hann í 4-3 sigri nýliða Sassuolo á AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Berardi er uppalinn leikmaður Sassuolo en var keyptur til Juventus í haust. Ítalíumeistarnir lánuðu hann strax aftur til Sassuolo og þar hefur hann farið á kostum með því að skora ellefu mörk í tólf leikjum.

AC Milan komst 2-0 yfir í kvöld með mörkum Robinho og Mario Balotelli. Þá var komið að þætti Berardi sem skoraði þrjú mörk áður en fyrri hálfleikur var flautaður af og bætti því fjórða við snemma í þeim síðari.

Riccardo Montolivo klóraði í bakkann fyrir AC Milan á 86. mínútu en þar við sat. AC Milan er nú í ellefta sæti deildarinnar með 22 stig - 30 stigum á eftir toppliði Juventus. Sassuolo er í sextánda sætinu með sautján stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×