Íslenski boltinn

Leikmenn Þórs grunaðir um að veðja á leik liðsins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Upp hafa komið vísbendingar um að sumir leikmenn meistaraflokks Þórs Akureyrar hafi veðjað á leik.
Upp hafa komið vísbendingar um að sumir leikmenn meistaraflokks Þórs Akureyrar hafi veðjað á leik. visir/daníel
Upp hafa komið vísbendingar um að sumir leikmenn meistaraflokks Þórs Akureyrar hafi veðjað á leik sem þeir tóku sjálfir þátt í. Leikmennirnir eiga að hafa grætt sumir hverjir 100-150.000 krónur á veðmálinu en þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Akureyri Vikublaðs.

Um er að ræða leik Þórs Akureyrar og Dalvík/Reynir á Kjarnafæðismótinu 13. janúar síðastliðin. Þór vann leikinn 7-0 en til skoðunar er hvort sumir leikmanna Þórs hafi veðjað á erlendri vefsíðu á eigin sigur og lagt aukalega undir ef sigurinn yrði stærri en þriggja marka. Hermt er að með því hafi þeir sem mest lögðu undir grætt 100.000 til 150.000 á úrslitunum.

Í samtali við Akureyri Vikublað segir Pétur Heiðar Kristjánsson, þjálfari meistaraflokks Dalvíkinga, að ef leikmenn Þórs hafi veðjað á eigin leik fordæmi hann slíkt.

„Fótboltinn á ekki að snúast um þetta,“ segir Pétur Heiðar.

Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, segist ekki hafa fengið staðfest að einhverjir leikmenn liðsins hafi veðjað á eigin leik en brugðist verði við orðróminum. Hann vill ítreka að svona framkoma væri ekki aðeins siðlaus heldur ólögleg.

Þjálfari Þórs segir ekki útilokað að Þór muni falast eftir svipuðum samningum við leikmenn og Breiðablik hafi gert, að leikmenn meistaraflokks skuldbindi sig til að veðja ekki á það sem þeir geta haft áhrif á. Viðurlög við broti gætu numið sekt, leikbanni eða jafnvel riftun samnings eða banni.

„Mesti glæpurinn er náttúrlega ef veðmálin hafa bein áhrif á gang leiksins og úrslit. Það má ekki gerast að fótboltinn fari að snúast um eitthvað svona rugl,“ segir Páll Viðar, þjálfari Þórs, í samtali við Akureyri Vikublað.

Spurningar vöknuðu síðasta sumar hvort Srdjan Rajkovic, markvörður Þórs, hafi hagnast á veðmálabraski með því að gefa í raun tvö mörk í leik liðsins gegn Eyjamönnum þegar liðið tapaði 3-1 á heimavelli.

Páll Viðar Gíslason þverneitaði fyrir allt slík í viðtali við Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×