Innlent

Ásgeir Trausti fær góða dóma erlendis

Tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti heldur áfram að gera það gott erlendis, en um helgina birtu bresku dagblöðin The Guardian og The Independent dóma um plötu hans, In The Silence.

Kitty Empire, gagnrýnandi The Guardian, gefur plötunni þrjár stjörnur af fimm mögulegum í dómi sem birtist á vef blaðsins í dag. Hún líkir Ásgeiri við hljómsveitina Bon Iver, og segir plötuna í heildina minna mikið á plötuna For Emma Forever Ago. Þá segir hún hann undir áhrifum frá Sigur Rós. Empire segir Ásgeir vera með mikið aðdráttarafl.

Þá gefur gagnrýnandi The Independent plötunni fjórar stjörnur af fimm og hrósar textum John Grant sérstaklega. Plötunni er lýst sem náttúruundri og söngur Ásgeirs sagður einlægur og sjarmerandi.

In The Silence er ensk útgáfa plötunnar Dýrð í dauðaþögn,sem seldist í yfir þrjátíu þúsund eintökum hér á landi, en það er tónlistarmaðurinn John Grant sem þýddi íslensku textana yfir á ensku.

Ásgeir hefur meira og minna verið á tónleikaferðalagi síðustu tvö ár, og er hann á leiðinni til Noregs í næstu viku. Þaðan fer hann svo til Asíu til að kynna plötuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×