Íslenska liðið situr nú í 2. sæti riðilsins, stigi á eftir Dönum og stigi á undan Spánverjum. Bæði lið eiga þó leik inni á eftir þegar Spánverjar mæta Austurríki og Danir mæta Ungverjum. Íslenska liðið hefði kosið að vinna stærri sigur þar sem Ungverjar, sem höfðu jafnmörg stig og Íslendingar fyrir leik dagsins, unnu sex marka sigur á Makedónum á dögunum. Markatala gæti ráðið úrslitum fari svo að Ísland og Ungverjaland ljúki leik í riðlinum með jafnmörg stig.
Okkar menn mættu værukærir til leiks og lentu 4-0 undir. Landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson tók í kjölfarið leikhlé og í kjölfarið bættu strákarnir leik sinn. Þeir skoruðu sex mörk gegn einu upp úr miðjum hálfleiknum og breyttu stöðunni úr 7-3 í 8-10. Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í markinu og Ásgeir Örn Hallgrímsson dró vagninn í sókninni.
Íslenska liðið hélt dampi út hálfleikinn og mark Snorra Steins Guðjónssonar á lokasekúndu hálfleiksins gaf liðinu þriggja marka forskot í hálfleik, 14-11.
Aftur mættu okkar menn illa stemmdir til leiks í síðari hálfleik og Makedóníumenn voru fljótir að jafna í 14-14. Íslenska liðið hélt frumkvæðinu en forskotið varð aldrei þægilegt. Mótherjinn andaði ofan í hálsmálið á strákunum okkar allt til enda en mark Gunnars Steins Jónssonar skoraði tuttugu sekúndum fyrir leikslok og tryggði tveggja marka sigur.
Íslenska liðið getur spilað mun betur en það gerði í dag. Það er þó jákvætt að sigur vannst þrátt fyrir það. Tæpur sigur gæti kostað liðið þegar uppi verður staðið enda unnu Ungverjar þægilegan sigur á Makedóníumönnum.
Ásgeir Örn og Björgvin stóðu upp úr hjá íslenska liðinu auk þess sem Róbert Gunnarsson nýtti færi sín á línunni vel. Flest allir geta leikið miklu betur og þurfa að gera það gegn Dönum á miðvikudag.

