Lífið

Heiðar í Botnleðju orðinn afi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Heiðar segist vera tilbúinn í afahlutverkið.
Heiðar segist vera tilbúinn í afahlutverkið. vísir/anton
Heiðar Örn Kristjánsson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Botnleðju, náði þeim merka áfanga að verða afi í nótt. Þessi geðþekki pönkrokkari tekur þessu fagnandi, en segist aðspurður ekki vera búinn að festa kaup á flókaskóm.

Söngvarinn var eldhress þegar Vísir náði tali af honum. „Já ég er víst orðinn afi. Stjúpdóttir mín eignaðist barn núna í nótt og er ég því orðinn afi. Eða skafi eins og ég kalla það. Þetta er nýyrði sem ég fann upp og þýðir skáafi.“

Heiðar verður fertugur á þessu ári og er fyrstur Botnleðjumeðlima til þess að eignast barnabarn.

„Við byrjuðum nú allir frekar seint. Vorum bara svo mikið að rokka. Ég varð pabbi 27 ára en eignaðist í leiðinni tvö stjúpbörn.“

Margrét Lena, stjúpdóttir Heiðars og móðir barnsins, er 19 ára og heilsast móður og barni vel að sögn Heiðars. Honum þykir tilfinningin að verða afi ekki svo undarleg.

„Þetta er bara lífið sko. Það breytist lítið við svona lagað og þetta er hlutverk sem ég er tilbúinn að gera eins vel og ég get. Núna fer þetta bara að detta inn hjá fólki.“

Heiðar fagnar því að vera loksins orðinn pönkafi þar sem hljómsveit hans, Pollapönk, á lag með því nafni. Hér kennir Heiðar „Pönkdansinn“ svokallaða við lagið Pönkafinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.