Erlent

57 prósent telja líkur á hryðjuverkaárás

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Vetrarólympíuleikarnir í Sotsjí hefjast á föstudaginn.
Vetrarólympíuleikarnir í Sotsjí hefjast á föstudaginn. vísir/afp
Meira en helmingur Bandaríkjamanna telur hryðjuverkaárás á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí líklega. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var fyrir fréttastofu CNN.

57 prósent telja árás líklega en það er hækkun frá sambærilegri könnun sem gerð var fyrir Ólympíuleikana í Atlanta 1996. Þá töldu 51 prósent svarenda líkur á hryðjuverkaárás, og höfðu því miður rétt fyrir sér. Tveir létust og 111 særðust í röð sprengjuárása í Ólympíugarðinum þar í borg.

Rúmlega 1.000 manns svöruðu könnun CNN og niðurstöður könnunarinnar sýna einnig neikvæða afstöðu almennings í Bandaríkjunum til Vladimís Pútín, forseta Rússlands. 54 prósent hafa ekki miklar mætur á forsetanum, og gerir það hann að einum óvinsælasta þjóðarleiðtoga heimsins í augum Bandaríkjamanna.

Aðeins 13 prósent svarenda telja að Bandaríkin eigi að setja sambærileg lög og samþykkt voru í Rússlandi í fyrra, sem banna það að tala á jákvæðum nótum um samkynhneigð opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×