Þrjátíu og átta prósentum kjósenda finnst Sigmundur Davíð hafa staðið sig vel í embætti forsætisráðherra en mun fleiri eru ánægðir með störf hans meðal kjósenda stjórnarflokkanna. Á meðal kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna er ánægjan mest hjá stuðningsmönnum Vinstri grænna.
Í könnun sem Stöð 2 og Fréttablaðið gerðu dagana 29. og 30 janúar var spurt hversu vel eða illa fólki finndist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa staðið sig í embætti forsætisráðherra, nú þegar hann hefur gengt því embætti í um sjö mánuði.
38 prósent telja að Sigmundur Davíð hafi staðið sig mjög eða frekar vel í embætti, en 31 prósent mjög eða frekar illa. Tíu prósent svara ekki spurningunni eða taka ekki afstöðu.
Þeir sem sögðust ætla að kjósa stjórnarflokkanna ef kosið yrði nú eru eðlilega mun ánægðari með störf Sigmundar Davíðs. 84 prósent kjósenda Framsóknarflokksins telja hann hafa taðið sig vel en 9 prósent illa. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru nokkuð sáttir við störf forsætisráðherra, en 64 prósent þeirra telja að hann hafi staðið sig vel en 8 prósent að hann hafi staðið sig illa.
Aðeins 13 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar telja að Sigmundur Davíð hafi staðið sig vel, en 54 prósent að hann hafi ekki gert það.
17 prósent kjósenda Samfylkingarinnar eru sáttir við störf forsætisráðherra en 56 prósent telja hann hafa staðið sig illa. Hins vegar telja 25 prósent þeirra sem ætla að kjósa Vinstri græn samkvæmt könnunni að Sigmundur Davíð hafi staðið sig vel en 59 prósent að hann hafi staðið sig illa. 18 prósent kjósenda Pírata telja forsætisráðherra hafa staðið sig vel en helmingur þeirra að hann hafi staðið sig illa.
Karlar eru sáttari við Sigmund Davíð en Konur. 43 prósent þeirra telja hann hafa staðið sig vel en 33 prósent kvenna. 30 prósent karla telja að hann hafi staðið sig illa en 33 prósent kvenna eru þeirrar skoðunar, en 8 prósent karla svara ekki eða taka ekki afstöðu og 11 prósent kvenna gera það ekki heldur. Ekki er mikill munur á afstöðu fólks eftir aldri.
Innlent