Innlent

Snarvitlaust veður á höfuðborgarsvæðinu og víðar

Snarvitlaust veður er nú á Kjalarnesi og er vindur þar um 40 metrar á sekúndu og yfir. Þar fauk kona um koll í dag og handleggsbrotnaði, rúður hafa brotnað í bílum og girðingar fokið.

Björgunarsveitin á staðnum er á ferðinni og tínir upp hluti sem farið hafa af stað og fergir það sem getur fokið. Einnig annast hún almennt eftirlit þar sem eitt og annað bendir til að skoða megi ástandið, t.d. við mannlaus hús í hverfinu.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík er einnig að störfum en hún var kölluð út á fimmta tímanum í dag þegar tilkynning barst um að gafl væri að fjúka af húsi í Hrafnhólum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg ítrekar að víða er ekkert ferðaveður og því ætti enginn að vera á ferðinni að nauðsynjalausu. Einnig eru íbúar þar sem veðrið er verst hvattir til að ganga tryggilega frá lausamunum í sínu nánasta umhverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×