Innlent

Fordæma ákvörðun bandarískra stjórnvalda

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fordæma ákvörðun bandarískra stjórnvalda að ætla að hefja á ný þvingunaraðgerðir gegn Íslendingum vegna hvalveiða.
Fordæma ákvörðun bandarískra stjórnvalda að ætla að hefja á ný þvingunaraðgerðir gegn Íslendingum vegna hvalveiða. mynd/samsett
Ungir sjálfstæðismenn fordæma þá ákvörðun bandarískra stjórnvalda að ætla að hefja á ný þvingunaraðgerðir gegn Íslendingum vegna hvalveiða en þetta kemur fram í ályktun frá sambandinu.

Hvorki er lagalegur né vísindalegur grunnur fyrir slíkum aðgerðum. Það kemur öðrum þjóðum ekki við með hvaða hætti Íslendingar nýta eigin auðlindir, hvað þá þegar sú auðlindanýting er með fullkomlega löglegum hætti.

Þeir hvalastofnar sem veiddir eru hér við land eru ekki í útrýmingarhættu og eru veiðarnar sjálfbærar. Veiðarnar skapa störf og gjaldeyristekjur. Það er því óforsvaranlegt að Bandaríkjamenn velti því fyrir sér að veitast að viðskiptafrelsi Íslendinga vegna þessara veiða.

Enn þarf að ítreka það að hvalveiðar þær sem Íslendingar stunda eru í senn sjálfbærar og smáar í sniðum, svo smáar að Ísland er ekki einu sinni á lista yfir þær tíu þjóðir sem veiða mest af hval í heimi. Þar eru hins vegar Bandaríkjamenn, og eru veiðar þeirra einkum úr stofnum sem eru margfalt minni en hrefnustofninn.

Því vaknar sú spurning hvort að Bandaríkjastjórn ætti ekki frekar að íhuga að beita sjálfa sig refsiaðgerðum vegna óábyrgra hvalveiða. Ungir sjálfstæðismenn lýsa fullum stuðningi við Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í baráttu sinni í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×