Viðskipti innlent

Ísland opið fyrir viðskiptum en ekki til sölu

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands. Vísir/Fanney Birna
Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að stjórnvöld vildu greiða götu atvinnulífsins. „Öflugt atvinnulíf, framtakssemi, fjárfesting, nýsköpun og önnur verðmætasköpun eru forsenda velferðar á Íslandi eins og annars staðar. Ég er bjartsýnn, ég er mjög bjartsýnn á framtíð Íslands,“ sagði Sigmundur.

Hann sagðist vita að undanfarin ár hafi verið fólki í atvinnurekstri erfið. „Menn létu ýmislegt yfir sig ganga og reyndu að þreyja Þorrann, þótt stundum væri það gert ómögulegt. En eftir margra ára þrautagöngu virðast menn nú vera að öðlast trú á framtíðina og fjárfesting er að taka rækilega við sér.“ Hann sagði hagvaxtaraukningu og framkvæmdir um allt land bera vott um það og full ástæða væri til að hefja sókn að nýju.

Sigmundur sagði frá því að nýverið hefði hann bent á þá staðreynd að þótt nauðsynlegt væri að efla bæði innlenda og erlenda fjárfestingu, þá hefði innlend fjárfesting ákveðna kosti umfram þá erlendu. Þau orð hans hafi verið tekin úr samhengi og umræðan hafi vatt upp á sig og hann, ásamt Íslendingum, sagður hræddur við erlenda fjárfestingu.

„Allt var þetta auðvitað tóm vitleysa. Það að benda á mikilvægi þess að bæta viðskiptajöfnuð landsins skaðar ekki orðspor landsins. Það að halda því ranglega fram að stjórnvöld á Íslandi séu fjandsamleg erlendum fjárfestingum er hins vegar mjög skaðlegt,“ sagði Sigmundur.

Hann sagði Ríkisstjórnina vinna að því að gera Ísland sem best í stakk búið til að vera öflugur þátttakandi í alþjóðaviðskiptum og búa fyrirtækjum sem besta starfsaðstöðu á Íslandi, en þau markmið fara augljóslega saman.

„Sú vinna hófst raunar þegar á fyrsta ríkisstjórnarfundi þar sem sett var af stað vinna við að einfalda regluverk atvinnulífsins og létta á þeirri byrði sem óhófleg skriffinnska og eftirlit eru orðin. Farið verður í gegnum allt núgildandi regluverk en jafnframt gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að íþyngjandi og skaðlegar reglur og lög haldi áfram að bætast við. Þar höfum við notið góðs af reynslu stjórnvalda í öðrum löndum og erum m.a. að koma á svo kölluðu regluráði í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að ný löggjöf innleiði hvata en ekki hindranir.“

Sigmundur sagði mörg stór og vænleg erlend fjárfestingaverkefni hafa verið í undirbúningi að undanförnu og aðkoma stjórnvalda hafi miðað að því að skapa þær aðstæður að sem flest slík verkefni verði að veruleika.

Einnig sagði Sigmundur að forystumenn samtaka atvinnurekenda þurfi einnig að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni. „Ekki bara vegna þess að það er rétt heldur líka vegna þess að það er efnahagslega mikilvægt, hagsmunirnir fara saman. Það var ekki ábyrgt gagnvart samfélaginu að berjast fyrir því að skattgreiðendur tækju á sig hundruða milljarða kröfur bara til að losna við vesen. Vesenið af því að láta undan slíku hefði orðið miklu meira á endanum. Það hefði kallað á langvarandi samdrátt og lífskjararýrnun og ekki hefði atvinnulífið hagnast á því.“

Afnám Gjaldeyrishafta

Sigmundur sagði mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf að gjaldeyrishöftin verði ekki afnumin nema að skilyrði væru til þess. Að uppgjörið á slitabúum gömlu bankanna skiptu höfuðmáli og að ekki hafi tekist að klára nauðarsamninga á þann hátt að það réttlætti afléttingu hafta. „Til þess að hægt sé að veita þeim aðilum sem óska eftir því undanþágur, þarf að liggja fyrir lausn sem rúmast vel innan greiðslujafnaðar Íslands. Mikilvægt er að undirstrika að hér er ekki um samningsefni að ræða. Annað hvort er þetta skilyrði uppfyllt eða ekki.“

„Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur, og íslenskt atvinnulíf, taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan restin er skilin eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.“

„Svo það sé á hreinu þá mun ríkisstjórnin ekki undir nokkrum kringumstæðum fórna langtímahagsmunum komandi kynslóða við skuldaskil fallinna banka. Því getið þið treyst,“ sagði Sigmundur.

Ennfremur sagði Sigmundur að hér á landi skorti aðgang að lánsfé á eðlilegum kjörum. „Það er orðið afar erfitt að fá lánsfé í bönkum út á góðar hugmyndir. Fjármagn er ekki veitt nema gegn verðmætum veðum og þá á háum vöxtum. Utan höfuðborgarinnar, þar sem veðhæfi fasteigna er lakara, stendur þetta fjölmörgum vænlegum verkefnum fyrir þrifum, meðal annars á sviði útflutnings og ferðaþjónustu. Vextir þurfa að lækka og fjármálastofnanir verða að þora að lána út á fleira en steinsteypu. Þær þurfa líka að búa við hvetjandi regluverk.“

Lífeyrissjóðir láti til sín taka

Sigmundur sagði lífeyrissjóðina þurfa að láta til sín taka á sviði nýsköpunar. „Löggjöfin sem lífeyrissjóðir starfa eftir þarf að breytast svo að þeir geti tekið virkari þátt í að búa til þau auknu verðmæti sem mun þurfa til að standa undir lífeyri framtíðarinnar.“ Lífeyrissjóðirnir þurfi að taka aukinn þátt í að skapa ný störf og ný verðmæti.

Þá hafði hann áhyggjur af stöðu lífeyrissjóðanna á hlutabréfamarkaði. „Á meðan lífeyrissjóðir búa við gjaldeyrishöft þarf ekki að koma á óvart að þeir séu fyrirferðamiklir á íslenskum hlutabréfamarkaði. Ég hef á hinn bóginn efasemdir um ágæti þess þegar hópur lífeyrissjóða stofnar sérstakt fyrirtæki til að taka stórar stöður í öðrum fyrirtækjum.“

„Við viljum hag íslenskrar verslunar og þjónustu sem mestan en það sama hlýtur að eiga við um framleiðendur,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni. Þá benti hann á Samtök iðnaðarins og átak þeirra: „Veljum íslenskt“.

„Það er hætta á að það líti út eins og tvískinnungsháttur ef samtök leggjast gegn því að fólk geti pantað póstsendingar frá útlöndum fyrir allt að 2000 kr. án þess að greiða aðflutningsgjöld en berjast á sama tíma með öllum tiltækum ráðum gegn því að íslenskir bændur njóti sömu heimamarkaðsverndar og í viðskiptalöndum okkar.“

Vísir/Pjetur
Skotið á Seðlabankann

Sigmundur beindi athygli að því að í Seðlabankinn kynnti í morgun greiningu sína á skuldaleiðréttingarnar. „Það er út af fyrir sig áhugaverð forgangsröðun að Seðlabankinn skuli leggja mikla vinnu í slíka greiningu óumbeðinn, á meðan ríkisstjórn Íslands bíður enn eftir greiningu á greiðslujöfnuði Íslands sem óskað var eftir fyrir nokkru síðan,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur sagði afnám verðtryggingarinnar hafa verið fyrirferðarmikið mál í umræðunni hér á landi og að engum dyldist að hér á landi virkaði peningastefnan ekki eins og skyldi.

„Greiðslubyrði á mánuði hefur verið heimilum tamara tæki við stærstu ákvarðanir um fjárfestingar en vextir. Þessu þarf að breyta og afnám þess verðtryggingarkerfis sem við höfum búið við er mikilvægt. Uppbygging húsnæðiskerfisins og endurskipulagning á tilhögun íbúðalána eru einnig brýn verkefni ríkisstjórnarinnar í því skyni að skapa heilbrigðara umhverfi heimila og fjármálamarkaðar.“

Ísland ekki á leið í ESB

Sigmundur sagði Ísland ekki vera á leið í Evrópusambandið. Í landinu væri ríkisstjórn sem væri einhuga um að hag landsins væri best borgið utan sambandsins og að fjölmörg dæmi undanfarinna ári sanni það.

„Umræðan um Evrópusambandið og Evrópusambandsaðild hefur hins vegar verið nokkuð sérkennileg á Íslandi undanfarin ár, svo ekki sé meira sagt. Hér hefur orðið lífsseig sú sérstæða hugmynd að hægt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að kanna hvað er í boði. Breytir þá engu hversu oft og afgerandi Evrópusambandið sjálft reynir að leiðrétta þetta og benda á að ljóst sé hvað er í boði og það sem er í boði sé ekki umsemjanlegt,“ sagði Sigmundur.

„Varla dettur íslenskum atvinnurekendum það til hugar að það sé æskileg eða yfir höfuð framkvæmanleg utanríkisstefna fyrir Ísland að ríkisstjórn sem er alfarið andvíg aðild að ESB standi í viðræðum við sambandið með það að markmiði að koma landinu þar inn? Undirriti jafnvel samning um aðild Íslands að ESB við hátíðlega athöfn í Brussel og láti klingja í kampavínsglösunum, en lýsi því svo strax yfir að þau ætli að berjast gegn því sem þau voru að undirrita? Varla dettur fólki í hug að ábyrg ríkisstjórn myndi fara með land sitt í slíka vegferð?“

Þá sagði Sigmundur að í samskiptum Íslands og ESB væri ekki um samruna að ræða heldur beiðni umsóknarríkis um innlimun. Þrátt fyrir stöðvun á viðræðum segir Sigmundur að Ísland muni áfram eiga gott samstarf við nágranna okkar í Evrópu og efla það víðtæka samstarf sem við eigum við Evrópuþjóðir. „Um leið verður haldið áfram að auka viðskipti við lönd um allan heim og hefja sókn á nýja markaði, m.a. á grundvelli fríverslunarsamninga.“

Þá nefndi hann fríverslunarsamning Íslands og Kína. „Þjóðir um allan heim hafa áhuga á Íslandi og líta á Ísland sem land tækifæra. Við eigum að nýta þau tækifæri og eiga viðskipti og uppbyggileg samskipti, bæði við þjóðir í Evrópu og um allan heim.“

„Í yfirskrift þessa fundar er spurt upp á ensku hvort Ísland sé ,,open for business”. Svarið er: Yes, Iceland is open for business, but the store is not for sale,“ sagði Sigmundur að endingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×