Innlent

Bjarni og Sveinn Andri finna tvífara hvors annars

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Báðir brandararnir hafa verið sagðir áður, en  sumum þykja þeir samt eflaust ferskur blær í Evrópuumræðuna.
Báðir brandararnir hafa verið sagðir áður, en sumum þykja þeir samt eflaust ferskur blær í Evrópuumræðuna.
Bjarni Benediktsson benti, í ræðu sinni í Valhöll í hádeginu, á líkindi Sveins Andra Sveinssonar lögmanns og Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.

Sveinn Andri hefur gagnrýnt Bjarna harðlega að undanförnu.

Sveinn Andri Sveinsson brást við með því að líkja Bjarna Benediktssyni við Stan Smith, úr teiknimyndaþáttunum American Dad. „Ég setti inn myndir af þeim á Facebook og sagði að teiknari hafi skyssað upp mynd af formanninum á fundinum,“ segir Sveinn Andri í samtali við Vísi.

En er það ekki bara ákveðin upphefð að rætt sé um þig í ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins?

„Jú vissulega, en ég hefði viljað að það væri við skemmtilegra tilefni,“ svarar Sveinn Andri.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er þetta ekki í fyrsta sinn sem Bjarni heyrir af líkindum sínum og teiknimyndapersónunnar vinsælu. Hann á golfkylfuhlíf með mynd af Stan Smith, sem hann fékk í gjöf frá konu sinni.

Úr Utanríkisráðuneytinu bárust þau svör að Gunnari Braga þætti ekki leiðinlegt að vera líkt við lögfræðinginn góðkunna.

„Bjarni er ekki fyrstur til að benda á þetta og hingað til hefur ráðherrann bara hlegið af þessu. Þetta er bara fyndið,“ segir Margrét Gísladóttir, aðstoðarkona Gunnars Braga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×