Innlent

Finnst umræða um Vigdísi oft lykta af kvenfyrirlitningu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Jón Gnarr segist, í uppfærslu á Facebook síðu sinni, telja það rétt að Vigdís Hauksdóttir verði fyrir einelti. Þá finnst honum umræðan um Vigdísi oft lykta af kvenfyrirlitningu. Þá segist Jón ekki fallast á að með því að ræða einelti sé ekki verið að gengisfella eineltishugtakið.

„Það er ekkert eitt eineltishugtak til. Við gengisfellum einelti ekki með því að ræða það, ekki frekar en kynferðislega áreitni, kvenfyrirlitningu, hómófóbíu eða fordóma,“ skrifar Jón. Ennfremur finnst honum fjölmiðlar leggja ákveðna hópa innflytjenda í einelti með að tilgreina alltaf ákveðin þjóðerni í tengslum við fréttir af glæpamálum þegar það skipti ekki máli.

Jóni finnst eineltisumræðan hér á landi oft vera á villigötum og byggja á sleggjudómum alhæfingum og vanþekkingu.  „Og ég undanskil sjálfan mig ekki. Ég hef sjálfur oft sagt og gert hluti sem ég hef séð eftir. Það er bara mannlegt. En mestu máli finnst mér skipta að vera meðvitaður um það, biðjast afsökunar og reyna að bæta sig. Og netið hefur breytt svo miklu í lífi okkar. Stundum verðum við óvart hluti af hóp sem við viljum ekki vera hluti af.“

„Stundum segjum við eitthvað um eitthvað sem einhver sagði, td. Vigdís Hauksdóttir en uppgötvum svo seinna að fleiri eru að gera það líka og maður er ekki einn heldur hluti af hóp. En hún er áfram ein.“

Þá segir Jón að léleg samskipti séu stærsta meinið í íslenskum stjórnmálum og rannsóknarskýrsla staðfesti það. „En við getum bætt þau. Við getum vandað okkur. Börnin okkar horfa til okkar. Við erum fyrirmyndir þeirra,“ skrifar Jón.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×