Sport

Mayweather mætir Maidana í maí

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mayweather berst við Saul Alvarez í september síðastliðinum.
Mayweather berst við Saul Alvarez í september síðastliðinum. Vísir/Getty
Floyd Mayweather leyfði aðdáendum sínum að velja næsta andstæðing sinn og fékk Marcos Maidana yfirburðakosninu.

Valið stóð á milli þeirra Maidana og Amir Khan og tilkynnti Mayweather í dag að samningar hefðu náðst við þann fyrrnefnda. Bardaginn fer fram í maí en staðsetning er óákveðin.

Mayweather, sem er 37 ára gamall, er ósigraður 45 bardögum og hefur unnið átta heimsmeistaratitla í þremur þyngdarflokkum. Hann er núverandi handhafi WBC- og The Ring-titlanna í veltivigt.

Maidana er þrítugur Argentínumaður sem er ríkjandi WBC-meistari. Hann hefur unnið 35 af 38 bardögum sínum, þar af 31 með rothöggi. Hann vann Bandaríkjamanninn Adrien Broner í desember síðastliðnum en það var fyrsta tap Broner á ferlinum.

„Ég er afar ánægður með að fá þetta tækifæri til að sýna heiminum að ég er sá besti í heiminum í veltivigt,“ sagði Maidana. Þess má geta að Khan vann Maidana þegar þeir mættust í hringnum árið 2010.

Mayweather vann í síðasta bardaga sínum sigur á Saul Alvarez en bardaginn sló met því sjónvarpstekjur af honum námu tæpum sautján milljörðum króna.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×