Innlent

Þingsályktun um viðræðuslit við ESB á leiðinni

Heimir Már Pétursson skrifar
Allt bendir til að þingsályktunartillaga verði lögð fram strax í næstu viku um slit á viðræðum Íslands við Evrópusambandið. Formaður Samfylkingarinnar telur ekkert kalla á viðræðuslit við núverandi aðstæður og segir nauðsynlegt að skoða málið betur.

Stefna stjórnarflokkanna í evrópumálum er sett fram í þremur skrefum í stjórnarsáttmála. Í fyrsta lagi að hætta viðræðum, gerð verði úttekt á stöðu viðræðnanna og þróun Evrópusambandsins sem nú hefur verið gert með skýrslu Hagfræðistofnunar og í þriðja lagi verði viðræðum ekki haldið áfram án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu sem enginn áhugi virðist vera á innan stjórnarflokkannna.

Umræðum um skýrslu Hagfræðistofnunar lýkur á Alþingi í kvöld eða á mánudag og eftir það liggur fyrir að ríkisstjórnin taki ákvörðun um framhaldið.

„Mér finnst eðlilegt í ljósi aðstæðna að Alþingi komi að málum með þeim hætti að Alþingi taki ákvörðun og það er auðvitað verið að ræða með hvaða hætti það yrði. Það er ekki hægt að segja á þessari stundu hvernig svoleiðis tillaga yrði orðuð eða hvernig hún yrði útfærð,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar.

Ljóst sé að umræðunum sem nú standa yfir verði fylgt eftir með tillöguflutningi. Samkvæmt heimildum fréttastofu gæti tillaga um viðræðuslit jafnvel litið dagsins ljós strax í næstu viku.

„Það liggur auðvitað fyrir að vilji núverandi stjórnarflokka stendur til þess að ljúka þessum viðræðum með einhverjum hætti. Það á síðan eftir að koma í ljós með hvaða hætti það verður nákvæmlega útfært,“ segir Birgir.

Þótt utanríkisráðherra vilji ekki staðfesta að lögð verði fram þingsályktunartillaga um að slíta viðræðunum segir hann kostina í stöðunni afar fáa.

Finndist þér sjálfum eðlilegast að ganga hreint til verks og höggva á þennan hnút og slíta viðræðunum?

„Mér hefur alltaf fundist eðlilegast að við værum utan Evrópusambandsins og mér finnst það að sjálfsögðu koma til greina. En eins og ég hef oft sagt er það ekki ég einn sem ákveð slíkt, þótt það sé kannski mín skoðun og margra annarra. Það er svolítið flóknara ferli og það er alveg ljóst ef við tökum einhverja ákvörðun í þessu máli aðra en að hafa þetta í frosti áfram, þá mun þingið koma að því,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir ekki tímabært að slíta viðræðunum.

„Það er ein leið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna og það kann að vera skynsamlegt. Ríkisstjórn hlýtur auðvitað að beygja sig fyrir vilja þjóðarinnar. En þjóðin vill það og þessi ríkisstjórn bauð upp á það fyrir kosningar,“ segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×