Erlent

Farþegaþota hvarf af radar

VÍSIR/AFP
Malasísk farþegaþota hvarf af radar í nótt á leiðinni frá Kúala Lúmpur til Peking. 239 farþegar voru um borð, þar á meðal tvö börn og tólf áhafnarmeðlimir. Vélin er á vegum Malaysian Airlines en í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að vélin hafi horfið af radar á sjöunda tímanum í gær, nokkrum klukkustundum eftir flugtak.

Að sögn víetnamskra yfirvalda hvarf vélin nærri lofthelgi Víetnam en ekki er vitað nákvæmlega hvar hún hvarf en hún hafði ekki samband við kínversku flugumferðarstjórnina og fór ekki inn í kínverska lofthelgi.

Talið er að vélin hafi steypst í hafið undan ströndum Víetnam og eru björgunarmenn nú að störfum þar. Hvorki tangur né tetur hefur fundist af vélinni að sögn samgönguráðherra Malasía en hann ræddi við fjölmiðla í nótt.  Framkvæmdastjóri flugfélagsins sagði við sama tækifæri að allt kapp væri lagt á að ná í fjölskyldur þeirra sem voru um borð í vélinni.

Fréttastofa Al Jazeera greinir frá því að vélin hafi lent á flugvellinum í Nanning í Kína. Flugmálayfirvöld í Kína fullyrða að þetta sé ekki rétt. Á flugvellinum í Peking, þar sem vélin átti að lenda seint í gærkvöld, er flugið merkt sem seinkun á upplýsingaskjám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×