Erlent

Löglegt að taka myndir upp undir pils kvenna

Karl Ólafur skrifar
Niðurstaða dómsins hefur reitt fólk til reiði.
Niðurstaða dómsins hefur reitt fólk til reiði. Mynd/AFP
Hæstiréttur Massachusetts hefur sýknað Michael Robertson, mann sem var ákærður fyrir ósæmilegt athæfi eftir að hann var gripinn við að taka ljósmyndir upp pils kvenmanna um borð í lest. L.A. Times greinir frá þessu.

Dómstóllinn bar þau rök fyrir sig að konur sem klæðist pilsum séu í raun og veru fullklæddar, og að ríkislög verndi aðeins fólk sem er að hluta til nakið eða fatalaus.

„Kona í lest sem er klædd pilsi, kjól eða álíka fatnaði sem hylur þá ákveðnu líkamshluta sem honum er ætlað að hylja er ekki „að hluta til nakin“, algjörlega óháð því hvort nærfatnaður sé undir pilsinu eða ekki,“ segir í úrskurði réttarins.

Niðurstaða réttarhaldanna hefur vakið hneyksli meðal almennings. Therese Murray, löggjafarþingsforseti Massachusetts, sagðist vera „ringluð og vonsvikin,“ eftir að hafa heyrt ályktun réttarins.

„Við höfum barist of lengi fyrir réttindum kvenna, og þetta er skref aftur á bak. Ég trúi því ekki að dómstólar skuli hafa komist að þessari niðurstöðu, og mér misbýður hvað dómurinn þýðir fyrir einkalíf kvenna og almennaöryggi,“ sagði Murray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×