Lífið

Sögðu nei við Ólafi Darra

Ólafur Darri Ólafsson, leikari, hefur gert það gott undanfarið og meðal annars leikið í þáttum á borð við True Detective, þar sem hann var eftirminnilega sprengdur í loft upp, og í þætti af seríunni Banshee, við góðan orðstír.

Vísir greindi frá því á dögunum að Ólafur Darri yrði í forgrunni sjónvarpsþáttarins Line of Sight hjá kapalstöðinni AMC sem á meðal annars heiðurinn á þáttunum Breaking Bad og Mad Men, en Ólafur Darri fór til Bandaríkjanna til þess að taka upp svokallaðan prufuþátt á síðasta ári.

En samkvæmt vefnum Deadline hefur kapalstöðin ákveðið að hefja ekki framleiðslu þáttanna. Þó er ekki öll von úti, því aðstandendur þáttanna eru nú í óða önn að leita til annarra stöðva sem gætu haft áhuga.

Jonathan Demme, sem leikstýrði meðal annars kvikmyndinni Silence of the Lambs, leikstýrði þeim David Morrissey, Kai Lennox og Söruh Clarke ásamt Ólafi Darra í Line of Sight.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×