Sport

Parketið í Kaplakrika skemmt eftir krossfit-mót

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Iðnaðarmenn vinna nú hörðum höndum í Kaplakrika, íþróttahúsi FH í Hafnafirði, að laga skemmdir sem urðu á parketinu í húsinu á krossfit-móti fyrir hálfum mánuði síðan.

Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2 í kvöld en hana má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Þrátt fyrir að 28mm spónarplötur og gúmmímottur hafi verið settar á gólfið skemmdist það á níu stöðum í tveimur íþróttasölum.

„Við vonumst til þess að þetta verði ekki tjón fyrir FH en heildartjón metum við á um eina og hálfa milljón,“ segir BirgirJóhannsson, framkvæmdastjóri FH, í samtali við Stöð 2.

Töluverð röskun hefur orðið á æfingum í húsinu sem og þeirri skólaleikfimi sem fram fer í Krikanum alla daga frá átta til fjögur en eftir hana hefjast reglubundnar æfingar.

Parketið sem notað er kostar 40.000 krónur fermetrinn og er sent frá Danmörku. FH-inga vantaði 25 fermetra af nýju parketi þannig mikill kostnaður fór í það eitt að fá efnið til landsins.

„Við erum búnir að tala við krossfit-menn og þeir vita hvernig málin standa. Þeir axla sína ábyrgð og hafa tekið því mjög vel. Þeir sitja engum digrum sjóðum þannig maður veit ekki nákvæmlega hvernig þetta fer,“ segir Birgir Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×