Sport

"Eldflaugin“ með fullkominn ramma í úrslitum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronnie O'Sullivan er fimmfaldur heimsmeistari.
Ronnie O'Sullivan er fimmfaldur heimsmeistari.
Englendingurinn Ronnie „The Rocket“ O'Sullivan, fimmfaldur heimsmeistari í snóker, átti ekki í teljandi vandræðum með að vinna Kínverjann Ding Junhui, 9-3, í úrslitaviðureign opna velska meistaramótsins í snóker sem lauk í gærkvöldi.

O'Sullivan, sem er af flestum talinn sá hæfileikaríkasti í sögu íþróttarinnar, komst snemma í 3-0 og tók öll völd í úrslitaleiknum þegar hann breytti stöðunni í 7-1. Þá átti Kínverjinn ekki möguleika lengur og vann O'Sullivann 26. stórmótið á ferlinum.

O'Sulliven kláraði síðasta rammann með stæl en þar náði hann 147 stigum sem er það mesta sem hægt er að fá. Því ná menn með því að setja svörtu kúluna ofan í eftir hverja einustu rauðu kúlu og negla svo lituðu kúlunum niður í réttri röð.

Þetta dreymir flesta snókerspilara um að ná að gera allavega einu sinni á ferlinum en „Eldflaugin“ náði þarna fullkomnum ramma í 12. sinn á ferlinum. Síðustu kúluna setti hann niður með vinstri hendi eftir að nota þá hægri í flestar aðrar aðgerðir í rammanum. Hann er jafnvígur hvort sem er með hægri eða vinstri.

„Ég náði fyrstu ellefu með hægri hendi þannig þessi telur sem vinstri handar 147. Ég hefði ekki getað lagt lokaskotið betur upp,“ sagði Ronnie O'Sullivan eftir sigurinn.

Hér að neðan má sjá „Eldflaugina“ ná 12. fullkomna rammanum á sínum ótrúlega ferli. Það tekur hann ríflega átta mínútur en gefið ykkur smá tíma. Svona gera bara snillingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×